Snæfell komst aftur á sigurbraut í Domino´s deild kvenna í kvöld þegar þær heimsóttu Grindavík. Lokatölur í Röstinni voru 52-68 Snæfell í vil. Þar með hafa komst Snæfell á topp deildarinnar með 8 stig, við hlið Hauka og Keflavíkur á meðan að Grindavík er einum sigurleik fyrir aftan. Kristen Denise McCarthy átti stórleik í liði Hólmara með 32 stig, 24 fráköst og 6 stolna bolta.
Fyrir leikinn var gert ráð fyrir að lið Grindavíkur væri heldur laskaðra en það ætti að sér að vera fyrir þær sakir að þær voru að spila án Maríu Ben Erlingsdóttur sem og hafði Rachel Tecca snúið sig á ökkla í vikunni og gekk því ekki alveg heil til skógar fyrir leikinn. En þar eru á ferðinni tveir stigahæstu leikmenn liðsins það sem af er tímabils.
Þrátt fyrir það virtist leikurinn ætla að verða jafn og spennandi ef tekið er mark á hvernig hann spilaðist í fyrsta fjórðung, en strax í þeim öðrum tóku gestirnir af skarið og voru komnar með nokkurra stiga forskot þegar flautað var til hálfleiks, 22-29.
Í seinni hálfleik héldu þær áfram að bæta við þetta forskot sitt, án þess að Grindavík hefði neina möguleika á að svara. Því fór svo að leikurinn endaði með 16 stiga sigri Snæfells 52-68 þar sem þær gulklæddu virtust bæði sakna Maríu (16 stig að meðaltali í leik fyrir leik kvöldsins) sem og Rachel, sem var ekki alveg til staðar, 9 stig og 21% nýting í kvöld. (21 stig að meðaltali með 43% nýtingu fyrir leik kvöldsins).
Hjá Grindavík ber helst að nefna Ásdísi Völu Freysdóttur sem skoraði 11 stig og tók 11 fráköst, Pálínu Gunnlaugsdóttur sem skoraði 12 stig og Rachel Tecca sem skoraði 9 stig og tók 14 fráköst.
Hjá Snæfelli átti Kristen Denise hreint magnaðan dag með 32 stig, 24 fráköst og 6 stolna bolta, sem og Hildi Sigurðardóttur sem skoraði 8 stig, tók 5 fráköst og gaf 8 stoðsendingar.
Umfjöllun og myndir/ Davíð Eldur



