ÍR slapp með sín fyrstu stig í Domino´s deildinni út úr Dalhúsum í kvöld með 75-81 sigri á Fjölni. Strákarnir úr Dalhúsum verma því botninn með Skallagrím en þetta eru tvö einu stigalausu lið deildarinnar. Um hörku slag var að ræða þar sem ÍR var ávalt feti framar. Fjölnismenn gerðu heiðarlega tilraun að sigrinum í lokin en það átti ekki að falla með þeim þetta skiptið.
Gestirnir úr Breiðholti voru fljótari af stað, komust í 7-12 og eini með lífsmarki hjá gulum heimamönnum var Arnþór Freyr sem gerði fyrstu sjö stig liðsins. Chris Gardingo bauð upp á tvær fjallmyndarlegar troðslur í fyrsta leikhluta og gestirnir leiddu 20-22 að honum loknum. Ekki áferðafallegar þessar fyrstu tíu mínútur og eflaust stóð þessum tveimur liðum nákvæmlega á sama um það enda bæði án stiga á botni deildarinnar.
Óli Torfa tók til sinna ráða í öðrum leikhluta, drenaði niður þremur þristum í röð og kom Fjölni í 29-25. Eins jákvæð og þessi rispa var fyrir Fjölni þá þurfti nú ekki mikið til að heimenn færu að hengja haus. Nokkrar litlar rispur gestanna settu allt í baklás hjá heimamönnum. Á þriggja mínútna kafla setti ÍR 7-20 sprett yfir gestgjafa sína og leiddu síðan 36-45 í hálfleik.
Arnþór Freyr leiddi Fjölni með 14 stig í hálfleik og Ólafur Torfason var með 10. Hjá ÍR var Kristján Pétur með 12 stig og Sveinbjörn Claessen 11.
Þriðji leikhluti bauð upp á tilþrif leiksins! Róbert Sigurðsson gaf þá silkimjúka „hollí hú“ sendingu á Daron Lee Sims sem þakkaði fyrir sig með troðslu og skömmu síðar var Róbert aftur á ferðinni með þrist og minnkaði muninn í 48-52. Þriðji leikhluti var sá fjörlegasti til þessa en ÍR-ingar náðu að slíta sig frá á endasprettinum og leiddu 54-61 fyrir fjórða og síðasta leikhluta.
Þau urðu stór og afdrifarík atvikin í fjórða leikhluta, Fjölnismenn lömdu sig nærri, 66-71, eftir körfu og villu að auki frá Arnþóri. Þegar mínúta lifði leiks fékk Ólafur Torfason sína fimmtu villu er hann komst inn í sendingu hjá ÍR en fékk dæmda á sig villu. Þarna var því miður um misbresti í dómgæslunni að ræða enda flautaði sá af þeim þremur sem lengst var frá atvikinu og hafði versta sjónarhornið. Skömmu síðar fá Fjölnismenn dæmda á sig óíþróttamannslega villu sem hefði mögulega mátt liggja á milli hluta en þess tvö atvik færa Fjölnismenn engu að síður ekkert fjær sannleikanum. Gulir tóku fleiri þrista í leiknum heldur en teigskot, voru ragir við að ógna körfu gestanna og ÍR reif niður 15 sóknarfráköst. Með þessu þristaregni settu þeir Sims í lága drifið og gagnaðist hann þeim lítt í leiknum.
ÍR-ingar fögnuðu vel í leikslok enda stigunum fegnir, lokatölur 75-81 eins og áður greinir þar sem Matthías Orri Sigurðarson átti virkilega flottan leik með 25 stig, 2 fráköst og 3 stoðsendingar. Kristján Pétur Andrésson átti líka sterkar rispur með 19 stig og 10 fráköst. Chris Gardingo er mikill íþróttamaður en það verður líka að nenna þessu.
Arnþór Freyr var mest ógnandi í liði Fjölnis með 27 stig, 5 fráköst og 3 stoðsendingar. Róbert Sigurðsson átti flotta kafla en hann gerði 9 stig, tók 4 fráköst og gaf 5 stoðsendingar. Ólaf Torfason þarf ekki að biðja um að berjast og setti hann 14 stig, tók 12 fráköst og gaf 6 stoðsendingar.
Flottur baráttuleikur í botnbaráttu deildarinnar og svo virðist sem ÍR ætli að sætta sig strax við að Björgvin Hafþór Ríkharðsson verði lengi frá. Fjölnismenn þurfa hinsvegar að koma fastari skorðum á sinn bolta, gera hlutina af mun meiri festu og fá jafnvægi í sinn leik.



