spot_img
HomeFréttirAllt small saman hjá Stólunum í þriðja

Allt small saman hjá Stólunum í þriðja

Nýliðar Tindastóls lögðu Njarðvík í Síkinu í Domino´s deild karla í kvöld. Í þriðja leikhluta smallt allt saman hjá heimamönnum hvar þeir lögðu grunninn að sigri kvöldsins, lokatölur 86-75.
 
 
Njarðvíkingar voru sterkara liðið framan af leik í Síkinu í kvöld og komust m.a í 14-7 og 21-12 en vörn Stólanna small saman upp úr miðjum leikhluta og þeir kláruðu sterkt og skoruðu 10-1 á síðustu tveimur mínútum fjórðungsins.  Jafnt 22-22 eftir fyrsta fjórðung.
 
Annar fjórðungur þróaðist á svipaðan hátt, byrjaði á vandræðum heimamanna og Njarðvíkingar komust nokkrum stigum yfir en Helgi Rafn tók yfir leikinn um miðjan fjórðunginn, skoraði 10 stig í röð og hélt Stólunum inni í leiknum. Tindastóll kláraði hálfleikinn svo sterkt á meðan Njarðvíkingar virtust missa tökin á sínu spili og treysta um of á einstaklingsframtak Loga og Dustin. Tindastóll hafði 4 stiga forskot í hálfleik 41-37
 
Í þriðja leikhluta small svo allt saman hjá Tindastól á meðan ekkert gekk upp hjá Njarðvík. Pétur Rúnar og Ingvi voru að spila frábæra vörn og Njarðvíkingar misstu boltann hvað eftir annað og var refsað af Tindastólsmönnum. Um miðjan leikhlutann var staðan orðin 62-44 fyrir heimamenn og mestur varð munurinn 21 stig, 74-53 í upphafi 4. leikhluta. Njarðvíkingar náðu að minnka muninn í tíu stig um miðjan 4. leikhluta en lengra komust þeir ekki og Tindastóll landaði öruggum sigri.  
 
Lokatölurnar urðu 86-75 fyrir heimamenn eftir að Njarðvíkingar skoruðu síðustu átta stig leiksins. Eftir leikinn sagði Helgi R. Viggósson, fyrirliði Tindastól að liðið hafi byrjað illa eins og raunin hefur verið í öðrum leikjum liðsins í haust en með góðri baráttu og einbeitingu hafi þetta gengið smurt í seinni hálfleik. Helgi sagðist ánægður með liðið heilt yfir og að þeir hafi náð að nýta mannskapinn vel og að yngri strákarnir hafi verið að koma inn með gott framlag.
 
Stig Tindastóls:  Lewis 23, Helgi Rafn 18, Darrel Flake 17, Dempsey 14, Ingvi R 7, Pétur 5 og Viðar 2.
Njarðvík: Dustin 24, Logi 14, Ágúst Orrason 13, Mirko 7, Hjörtur Hrafn og Snorri 5 hvor, Ólafur Helgi 3, Ólafur Aron 2 og Rúnar Ingi 2
 
 
Umfjöllun og myndir/ Hjalti Árnason
  
Fréttir
- Auglýsing -