spot_img
HomeFréttirWillie Nelson er „on the road again“

Willie Nelson er „on the road again“

William Henry Nelson leikur ekki meira með Snæfell þetta tímabilið en Hólmarar hafa ákveðið að láta kappann fara. Fólk tengdi leikmanninn fljótt við köntrýsöngvarann fræga, Willie Nelson, og hafði gaman af en þeir kumpánar eiga fátt ef nokkuð sameiginlegt. Ingi Þór Steinþórsson þjálfari Snæfells sagði við Karfan.is að Nelson hefði ekki hentað leikstíl liðsins og að leit að eftirmanni hans stæði nú yfir.
 
 
„Það skýrist núna á næstu tímum hvort arftaki Nelson nái hingað í tæka tíð fyrir leikinn gegn Þór Þorlákshöfn á föstudag. Nelson stóðst ekki alveg væntingar okkar og hentaði leikstíl okkar ekki. Þá skemmdi framkoma hans fyrir og það gátum við ekki fellt okkur við. Næsti maður verður meira í námunda við körfuna,“ sagði Ingi Þór en að hans sögn mun Nelson vera á leið til meginlands Evrópu og ku vera kominn með annað lið nú þegar. Hans síðasti leikur var með Snæfell í Poweradebikarnum gegn Hetti.
 
Nelson segir því skilið við Hólmara með 20,5 stig og 13,8 fráköst að meðaltali í leik.
 
Mynd/ Sumarliði Ásgeirsson – Nelson í frákastabaráttunni með Snæfell gegn Stjörnunni.
  
Fréttir
- Auglýsing -