Haukar mættu í annað sinn í þessari viku í Ásgarð í kvöld og höfðu harma að hefna síðan í bikarkeppninni á mánudag. Stjarnan var þá hátt á lofti og spennandi að sjá hvort Haukarnir kæmu sér á flug í kvöld til að nálgast hana og jafnvel senda til jarðar.
Fyrsti leikhluti var svolítið eins og endursýning frá síðasta leik. Heimamenn voru grimmari, spiluðu góða vörn og komu sér fljótt ágætlega fyrir í bílstjórasætinu. Framlag kom úr öllum áttum, hinn fullvaxta en ungi FG-ingur Tómas Þórður setti t.a.m. snögg 5 stig og staðan orðin 15-6. Vörnin hjá Haukum var ekki til fyrirmyndar og flæðið ekki gott sóknarlega.
Stjörnumenn hikuðu ekki við að spila fast á Francis enda líður honum ekkert sérstaklega vel á línunni. Haukar freistuðu e.t.v. of oft gæfunnar fyrir utan þriggja stiga línuna með dræmum árangri. Að loknum leikhlutanum var staðan 31-20 sem segir kannski nokkuð um Haukavörnina.
Það kom allt annað Haukalið inn á völlinn í öðrum leikhluta. Gestirnir höfðu greinilega fengið nóg af meðalmennskunni og sýndu að þeir geta vel spilað háklassa vörn. Það er þekktur frasi að sóknin komi með vörninni og svo virtist vera hjá Haukunum í þessum leik. Flæðið varð betra og fleiri leikmenn að skipta sér af í sóknarleiknum. Forskot heimamanna minnkaði jafnt og þétt og Emil kom Haukum yfir 35-36 í fyrsta sinn í leiknum þegar rúmar 4 mínútur voru eftir af leikhlutanum. Heimamenn áttuðu sig þá á því að Haukarnir voru loks mættir fyrir alvöru í Ásgarð og spyrntu við fótum og unnu síðustu mínúturnar 9-4, staðan 44-40 í hálfleik. Jafn og stórskemmtilegur leikur í gangi, herra Garðabær bauð upp á einsöng í hálfleik og allir hressir.
Það var stál í stál í þriðja leikhluta. Bæði lið sýndu skemmtilega takta og buðu upp á fínan körfubolta. Hin öflugi og stórskemmtilegi leikmaður Hauka, Haukur Óskarsson, snögghitnaði og henti í þrjá þrista á skömmum tíma. Dagur Kár svaraði með einum slíkum sem náði annars ekki alveg sama takti og í síðasta leik. Hann virtist vera dulítið æstur og engu líkara en hann væri með hugann við yfirvofandi salsa-ball FG. Liðin skiptust ítrekað á um forystuna og stórglæsilegt alley-oop á Hauk meðal skemmtiatriða í leikhlutanum. Heimamenn enduðu ofan á að loknum leikhlutanum, 68-67.
Baráttan jókst enn frekar í fjórða leikhluta. Lítið var skorað og jafnt á öllum tölum. Liðin skiptust á körfum og staðan 80-78 þegar tæpar fjórar mínútur lifðu leiks. Hver sókn varð dýrmætari eftir því sem á leið og ljóst að einn stuttur sprettur hjá öðru hvoru liðinu gæti gert út um leikinn. Sá sprettur kom og voru það Stjörnumenn sem áttu hann. Það var fyrst Marvin hinn þaulreyndi sem setti stóran þrist, 84-80. Haukar töpuðu svo boltanum á ögurstundu og Frye setti annan þrist upp úr þurru í næstu sókn. Staðan þá 87-80, rúmar tvær mínútur eftir og vonin allt í einu orðin lítil fyrir Hauka. Ágúst tróð svo sigrinum í hús eftir annan slæman tapaðan bolta Hauka, 89-82, og of lítið eftir fyrir gestina. Þeir börðust sannarlega til enda en leik lauk með 93-85 sigri heimamanna.
Liðin buðu upp á mjög skemmtilegan og spennandi leik í kvöld. Ýmis tilþrif litu dagsins ljós og pistillinn gæti verið mikið lengri. Bæði lið mjög heilsteypt og fengu framlag úr öllum áttum. Það var synd, eins og kannski svo oft áður, að annað liðið þurfti að fara tómhent úr húsi.
Alex Francis var mjög góður í kvöld með 21 stig, 15 fráköst og boðlega vítanýtingu! Emil sýndi getu sína með 18 stig, 9 stoðsendingar og 5 fráköst. Haukur Óskarsson var stigahæstur gestanna með 23 stig. Hjá heimamönnum var Jarrid Frye í gangi allan leikinn, setti 26 stig og tók 9 fráköst. Ágúst Angantýsson er svo sannarlega góð búbót fyrir Garðbæinga, spilaði mjög vel í kvöld, skoraði 21 stig og tók 12 fráköst.
Umfjöllun: Kári Viðarsson
Hinn stórskemmtilegi leikmaður Hauka, Haukur Óskarsson, er orðinn einn af burðarásum liðsins. Hann var stigahæstur sinna manna í kvöld með 23 stig og var tekinn tali eftir leik:
Þetta var mun betri leikur hjá ykkur en á mánudaginn en það dugði ekki til í kvöld?
Nei, leikurinn á mánudaginn var alveg skelfilegur og við ætluðum að gleyma honum bara strax og reyna að koma okkur í sama gír og við vorum í fyrir þann leik. Við vorum pínu lengi af stað í kvöld og fengum á okkur 31 stig í fyrsta leikhluta. Það er erfitt að koma til baka og elta eftir svo lélega byrjun gegn sterku liði eins og Stjörnunni.
Þið voruð alls ekki síðra liðið í öðrum, þriðja og fjórða leikhluta, ertu sammála því?
Já þetta var hörku körfubolti og við spiluðum vel í öllum leikhlutum nema í þeim fyrsta. Við erum ekki heldur búnir að vera að hitta vel hérna í þessu húsi og vítanýtingin okkar er ekki til fyrirmyndar og það er fljótt að telja.
Þið eruð núna með 4 sigra og 1 tap í deildinni, það er svo sem fín byrjun og engin ástæða til annars en að vera bjartsýnn á framhaldið?
Jú, þetta er ágætis byrjun. Við erum búnir að setja okkur markmið og við erum alveg á pari við þau ennþá. Mér finnst við samt ekki alveg vera í sama gír núna og í byrjun tímabils og ég veit ekki alveg hvað það er, kannski er bara fínt að fá smá skell hérna.
Mynd úr safni/ Axel Finnur



