Heimakonur í Hamri mættu fámennar til leiks í gærkvöldi eftir að Andrina Rendon var send heim fyrir helgi og nýr erlendur leikmaður ekki kominn í staðinn. Þess utan var Katrín Eik að koma úr kirtlatöku og því í Bingó-gallanum á bekknum. 8 leikmenn á skýrslu og það ekki gott gegn sterkum Keflvíkingum með allar sýnar sparihliðar sem og nautsterku, sunnlensku Marín Laufey í nýjum búning í Frystikistunni og vildi greinilega sýna þeim sem mættir voru sínar bestu hliðar.
Leikurinn byrjað á nokkrum misheppnuðum skotum á báða bóga en að endingu setti Hamar fyrstu stigin og voru yfir í fyrsta og eina skiptið 2-0. Eftir að Keflavíkurkonur svöruðu með 3ja stiga sókn jókst munurinn jafn og þétt þar sem hittni heimastúlkna var þeim helst að falli í leiknum.
9-24 eftir fyrsta leikhluta og léleg skotnýting Hamarsstúlkna sem og nánast engin fráköst í fyrsta leikhluta var einkennandi og hélst út leikinn nema hvað að aðeins hresstust þær í frákastabaráttunni þegar á leið leikinn. Leikur gestanna var aftur á móti á fullri orku, fumlaus og afslappaðri og þegar slíkt er detta skotin frekar. Bæði lið voru að láta boltann ganga vel en Keflavíkurkonur alltaf snöggar að refsa og grimmar í sóknarfráköstum.
Skotnýting Hamars var einungis 21% utan af velli en 81% af vítunum og lítið sem ekkert sem féll með í kvöld. Keflavíkur konur voru með 41% nýtingu utan af velli og 88% af vítalínunni. Frá¬köst Hamars kvenna vor 20 í vörn, 6 í sókn enn hjá Keflavík 38 í vörn, 19 í sókn.
Gangur leiksins: 2:3, 5:13, 5:19, 9:24, 11:29, 19:32, 20:39, 24:43, 24:47, 33:55, 37:63, 37:69, 37:78, 39:82, 46:86, 48:92.
Hamar: Salbjörg Ragna Sævarsdóttir 14/4 fráköst/3 varin skot, Þórunn Bjarnadóttir 13/6 fráköst, Heiða B. Valdimarsdóttir 10/6 fráköst, Kristrún Rut Antonsdóttir 8, Sóley Guðgeirsdóttir 3/8 fráköst, Jóhanna Herdís Sævarsdóttir 0/4 fráköst, Helga Vala Ingvarsdóttir 0, Jóna Sigríður Ólafsdóttir 0.
Keflavík: Carmen Tyson-Thomas 18/8 fráköst, Sara Rún Hinriksdóttir 14/9 fráköst, Ingunn Embla Kristínardóttir 12/4 fráköst, Birna Ingibjörg Valgarðsdóttir 9/7 fráköst, Thelma Dís Ágústsdóttir 8/5 fráköst, Marín Laufey Davíðsdóttir 8/7 fráköst, Hallveig Jónsdóttir 6, Sandra Lind Þrastardóttir 6/10 fráköst, Bríet Sif Hinriksdóttir 6/4 fráköst, Lovísa Falsdóttir 3, Emelía Ósk Gunnarsdóttir 2, Irena Sól Jónsdóttir 0.
Dómarar: Rögnvaldur Hreiðarsson, Georgia Olga Kristiansen dæmdu án stórra vandræða og komust vel frá sínu.
Umfjöllun/ AT



