spot_img
HomeFréttirStórsigur hjá Stólum

Stórsigur hjá Stólum

Hann varð aldrei spennandi, leikur Fjölnis og Tindastóls sem fram fór í Dalhúsum í kvöld. Eftir jafnræði í upphafi leiks tóku gestirnir úr Skagafirði öll völd og uppskáru 18 stiga sigur, 80-98, gegn heimamönnum í Fjölni, þar sem gestirnir voru einfaldlega betri á öllum sviðum körfuboltans.
 
 
Í upphafi skiptust liðin á körfum, þar til um miðjan fyrsta fjórðung. Þá vöknuðu Stólarnir til lífsins og fóru að spila góðan sóknarleik, sem einkenndist aðallega af körfum innan teigs, en þeir Myron Dempsey og Helgi Viggósson voru báðir illviðráðanlegir með 10 stig í fyrsta leikhluta. Að loknum fyrsta fjórðungi höfðu Tindastólsmenn komið sér í sjö stiga forystu, 21-28.
 
Sökum tæknilegra vandamála tafðist leikurinn um nokkrar mínútur milli fyrsta og annars leikhluta, en þegar annar leikhluti hófst tóku Skagfirðingar yfir leikinn. Fjölnismönnum gekk illa að koma boltanum upp völlinn, og náðu gestirnir oft og tíðum að stela boltanum frá ógætnum Grafarvogspiltum. Í hálfleik höfðu gestirnir 12 stiga forskot, 39-51.
 
Í seinni hálfleik lék aldrei nokkur vafi á því hvorumegin sigurinn myndi lenda. Tindastólsmenn höfðu einfaldlega yfirburði á öllum sviðum körfuboltans, og gátu Fjölnismenn lítið gert til að stöðva gestina. Myron Dempsey átti frábæran leik, með 24 stig, 17 fráköst og 6 varin skot, Darrell Lewis var með 18 stig og 10 stoðsendingar, og Helgi Rafn Viggósson skoraði 16 stig. Hjá Fjölnismönnum var Daron Sims bestur með 17 stig, og 10 fráköst og Ólafur Torfason bætti við 15 stigum og 10 fráköstum. Allt í allt var þetta virkilega öruggur sigur gestanna, en Grafarvogsbúar þurfa að spila mun betur í næsta leik gegn Stjörnunni, ætli þeir sér að eiga möguleika þar.
 
 
Umfjöllun – Elías Karl
 
  
Fréttir
- Auglýsing -