spot_img
HomeFréttirSanngjarn sigur Breiðbliks á Jakanum

Sanngjarn sigur Breiðbliks á Jakanum

Það var ljóst frá fyrstu mínútu leiks að Blikar voru komnir til að sækja sigur vestur á Ísafjörð. Þeir byrjuðu með látum og tóku öll völd á Jakanum. Þar fóru fremstir þeir Halldór, Ágúst og Egill. Vörnin hjá KFÍ hélt engu og voru strákanir úr Kópavogi eins og andsettir beggja vegna vallarins og fóru með 25-15 forskot í annan leikhluta.
 
 
En dæmið snerist heldur betur við í öðrum leikhluta og var það vegna innkomu Stefáns Diego á völlinn. Hann er kannski minnsti leikmaðurinn en byrjaði strax að senda, skora og rífa niður fráköst og smitaði hans leikur út frá sér og þegar farið var í hálfleik var staðan allt í einu 43-45 og KFÍ tók leikhlutann 28-20.
 
Allir höfðu trú á að þetta væri að koma og nú myndi leikur KFÍ batna, en Adam var ekki lengi á ísnum og blikar tóku enn og aftur öll völd, skelltu í lás í vörn og með góðum leik inn og við teiginn kom áhlaup og enn á ný tóku þeir leikhlutann örugglega, eða 28-16 og staðan fyrir lokaleikhlutann var 59-73.
 
Fjórði leikhluti var öllu jafnari og KFÍ náði að minnka muninn í 9 stig en það var einfaldlega of seint og tóku drengirnir hans Borce þennan sigur og áttu hann verðskuldað.
 
Í liði Breiðabliks var Egill Vignisson afburðamaður og skoraði stig sín í öllum regnbogans litum. Ekki langt frá voru þeir Halldór Halldórsson og Pálmi Geir Jónsson með skínandi leik og Nathan Garth var flottur í sókn en verður að herða sig í vörninni. Það væri ósanngjarnt að nefna það ekki að bekkur Blika var flottur og allir sem komu inn á gáfu allt í þetta, hvöttu vel og öskruðu hvern annan áfram.
 
Í liði KFÍ voru Nebojsa og Birgir Björn flottir og innkoma Stefáns Diego gladdi fólk, en þetta er fyrsti leikur hans í vetur. Pance minnti á sig og átti flottar rispur. Lið heimamanna virkaði þreytt á löngum köflum og vantaði alla hvatningu innan og utan vallar. Vörn þeirra brást illa í kvöld en sóknarleikurinn var á tímum góður. Það býr mikið meira í þessu liði og nú er bara að æfa stíft og berja upp andann,
 
Dómarar leiksins voru þeir Jón Bender og Steinar Orri Sigurðsson og þeir byrjuðu vel en missa tökin þegar á leið og heldur mikið flautað. Það bitnaði þó jafnt á báðum liðum og ekki þeim að kenna hvernig fór. Allir eiga slæma daga, það er jú mannlegt.
  
Staðan í 1. deild karla
Deildarkeppni
Nr. Lið U/T Stig
1. Höttur 4/2 8
2. Hamar 4/1 8
3. Breiðablik 3/2 6
4. Valur 3/2 6
5. FSu 3/2 6
6. ÍA 3/2 6
7. KFÍ 1/5 2
8. Þór Ak. 0/5 0
Fréttir
- Auglýsing -