FSu tók á móti toppliði Hattar í 1. deild karla í Iðu í kvöld. Þó nokkrar væntingar bærðustu í brjóstum stuðningsmanna heimaliðsins eftir svellkaldan seinni hálfleik og sigur á Blikum í Smáranum í síðustu umferð. Og eftir sannkallaðan rússíbana, skrykk og skrekk, læstu FSu-strákar á eftir sér við miðju í síðasta fjórðung, stálu boltum, fengu nokkrar velþegnar, auðveldar körfur og slitu sig frá gestunum síðustu mínúturnar. Lokatölur 76-63 og FSu færir sig upp í kösina við topp deildarinnar.
Heimamenn byrjuðu miklu betur í leiknum og staðan var fljótlega orðin 7-0. Þá fór allt að hiksta, algert sambandsleysi var í Iðu og ekki einu sinni hægt að bjóða upp á beina tölfræðilýsingu, hvað þá meir! Hattarmönnum gekk ekkert heldur og það var þeim til láns að heimamenn misnotuðu hvert upplagða sóknarfærið eftir annað. Smám saman dró saman með liðunum, en FSu hélt þó naumri forystu út fyrsta hlutann, en hann endaði 22-16.
Í öðrum hluta hafði Höttur austanáttina í bakið og svo var að sjá að gosmengun og mistur sem henni fylgir þessi misserin villti heimaliðinu alla sýn á körfuna. Höttur vann þennan hluta 10-19 og leiddi í hálfleik 32-35. Það var einungis góður varnarleikur sem hélt FSu inni í leiknum, liðinu voru afar mislagðar hendur sóknarlega, ekki bara að skotin væru mörg víðsfjarri, heldur buðu leikmenn upp á allskyns klúður og klafs og tapaða bolta. Þeim til hróss gáfust þeir þó aldrei upp og sóttu bara boltann aftur á hinn vallarhelminginn.
Það sama var uppi á teningnum í þriðja hluta, sem Höttur vann 15-16 og leiddi með fjórum þegar 10 mínútur voru eftir, 47-51. Það virtist hlemmur á körfunum, því liðin sköpuðu sér stundum ágæt færi.
Í síðasta leikhluta rofaði loks til, mest fyrir frábæran varnarleik, stolna bolta og hraðaupphlaup, og FSu setti 29 stig gegn 12 stigum gestanna, sem áttu fá svör og urðu að játa sig sigraða með 13 stigum eins og áður gat.
Hjá gestunum var Keflvíkingurinn Ragnar Albertsson atkvæðamestur í fyrri hálfleik, kattmjúkur og efnilegur strákur, skoraði 15 stig í leiknum. Tobin tók við undir lokin og skoraði flest stig Hattar og sín í síðasta fjórðung, endaði með 17 stig, Hreinn skoraði 9, Nökkvi og Benedikt 8 hvor og Sigmar 7 stig.
Hjá heimamönnum var Ari atkvæðamestur í stigaskori, með 5 þrista og 20 stig – og ágætan leik. Collin átti erfitt uppdráttar í kvöld, fékk snemma 2 villur og þá þriðju strax í 2. hluta og sat á bekknum meira og minna í fyrri hálfleik. Hann komst aldrei almennilega í gang eftir það í sókninni en stóð undir nafni í vörn og fráköstum þegar mest á reið, skoraði 14 stig. Hlynur var í hálfgerðum villuvandræðum líka en átti góða spretti bæði í vörn og sókn og skoraði 10 stig. Elli var afbragð í vörninni, 9 stig, Birkir og Maciej 8 stig, Geir Elías 6 og Þórarinn 1 stig. Stigaskorið dreifist alljafnt og allir leikmennirnir fengu mínútur.
En þennan sigur getur liðið sem sagt þakkað samstöðunni, varnarleiknum og baráttuandanum. Aldrei að gefast upp, það er fínt mottó. Takk fyrir.
Þess má geta að tölfræði úr leiknum verður skráð af hreyfimyndaupptöku og birt á kki.is, vonandi strax á morgun.
GÞ
Mynd/ úr safni – Erik Olson stýrði FSu til sigurs gegn Hetti í kvöld.



