spot_img
HomeFréttirÍslandstenging háskólaúrslitanna 1979

Íslandstenging háskólaúrslitanna 1979

Það er nú svo með sumar sögur að þær gleymast og því mikilvægt að þær séu rifjaðar upp. Allir körfuboltaunnendur hafa heyrt talað um úrslitaleikinn í bandaríska háskólaboltanum vorið 1979, leikur Michigan State Spartans og Indiana State Sycamores, sem þó flestir minnast sem einvígis Magic Johnson og Larry Bird.
 
 
Það sem fæstir af yngri unnendum íslensk körfubolta vita, en þeir sem eldri eru þekkja vel, er að þessi leikur hefur mikla tengingu við Ísland. Eins og einn sagði við undirritaðan, fjórir leikmenn þessa leiks léku seinna á Íslandi og taldi svo upp Decarsta Webster, Alex Gilbert, Brad Miley og Larry Bird. Eða nei, Bird kom víst aldrei, þeir voru bara þrír.
 
En það er engin lygi, þrír leikmenn Indiana State á þessum árum komu til Íslands. Fyrstur kom Decarsta Webster til KR haustið 1979 og eins allir ættu að þekkja varð hann seinna íslenskur ríkisborgari og hét þá Ívar Webster og lék lengi á Íslandi. Hann lék alla leiki Indiana veturinn 1977-78 en kom ekki við sögu veturinn 1978-79.
 
Brad Miley hins vegar kom til Vals haustið 1980 og lék með þeim eitt ár. Kom svo nýliða Keflavíkur haustið 1982 eftir að þeir höfðu látið Tim Higgins fara og var Miley jafnfram þjálfari liðsins sem endaði í öðru sæti eftir hreinan úrslitaleik við Val. Árið eftir var hann svo þjálfari Keflavíkur en þá voru erlendir leikmenn bannaðir.
 
Alex Gilbert kom til Njarðvíkur haustið 1982 og spilaði 6 leiki.
 
Bæði Miley og Gilbert léku alla leiki Indiana State veturinn 1978-79 og voru í byrjunarliðinu alla leikina. Miley skoraði 5,3 stig í leik og tók 6 fráköst en Gilbert var með 9,6 stig og 6,1 frákast en til gamans má geta að Bird skoraði 28,6 stig og tók 14,9 fráköst.
 
Í meðfylgjandi myndbandi má sjá leikinn fræga en þar er Miley nr 40 og Gilbert nr 42. Gilbert skoraði 4 stig í leiknum og tók 4 fráköst en Miley komst ekki á blað í stigaskorinu en tók 3 fráköst.
 
  
RBG
Fréttir
- Auglýsing -