Að spila körfubolta í háskóla í Bandaríkjunum er engin slökun. Menn leggja sig ekkert eftir hádegi og spila NBA 2K áður en þeir mæta til leiks. Elvar Már Friðriksson og Martin Hermannsson spila sinn fyrsta leik fyrir LIU Brooklyn Blackbirds í kvöld. Það er stúfull dagskrá hjá strákunum núna á leikdegi.
Karfan.is náði tali af Elvari Má og Martin fyrir stuttu. Aðspurður um hvernig dagurinn væri nú rétt fyrir leik svaraði Elvar: ”Nánast stúfull dagskrá. Er í skólanum núna, svo fer ég á æfingu og fund. Svo er bara út að borða með liðinu fyrir leik og svo keyrt beint í leik.”
Elvar segir að Svartfuglarnir hafi spilað tvo æfingarleiki undanfarið þar sem þeir hafi verið báðir í byrjunarliðinu. Það er því allt eins líklegt að þeir byrji leikinn en það ræðst allt bara rétt fyrir leik í kvöld. “Ég heyrði að hann ætlaði að breyta eitthvað til í kvöld,” bætti hann svo við.
Jack Perri, þjálfari liðsins sagði nýverið í viðtali að Elvar og Martin séu best undirbúnir fyrir átökin af nýju leikmönnum liðsins. Kemur það þeim á óvart? “Nei, í rauninni ekki. Þeir eru að koma beint úr highschool og við úr úrvalsdeild.”
Sóknarleikur Svartfuglanna í vetur mun fara mikið í gegnum Elvar og Martin og við því búist að þeir verði í lykilhlutverki hjá liðinu. Það eru tveir fjórða árs leikmenn hjá liðinu í ár og þeir spila 2/3 og 4 þannig að stöður leikstjórnanda og skotbakvarðar ættu að vera lausar fyrir strákana okkar til að eigna sér. LIU mun spila mikið til run & gun bolta í vetur, sem mun henta þeim mjög vel.
Þrátt fyrir fréttir af snjó í New York fylki segja strákarnir engan snjó vera í borginni, “en það er ógeðslega kalt!”
Leikurinn fer fram á heimavelli St. John’s háskólans í Queens, NY. Þessi lið hafa mæst 12 sinnum síðan 1931. St. John’s sigrað í 9 leikjum en LIU aðeins 3. Síðustu 4 leikir hafa fallið St. John’s megin svo það er við ramman reip að draga fyrir Svartfuglana. St. John’s er í Big East riðlinum í 1. deild NCAA, sem er einn sá allra sterkasti í mótinu.
“Þetta er bara draumur að rætast í kvöld,” sagði Martin, en aðspurður hvort það yrði eitthvað NBA 2K15 fyrir leik svaraði Martin: “Kannski smá Call of Duty” og hló.
Leikmenn Svartfuglanna fengu skó frá Nike, nýjustu gerðina af Hyperdunks og Kobe 9 Elite. Martin og Elvar segjast báðir ætla að spila í Kobe í kvöld.
Hægt verður að horfa á leikinn á ESPN College Pass í kvöld. Hægt er að kaupa áskrift fyrir heilt tímabil, einn mánuð eða einn dag í einu. Dagspassinn kostar t.d. EUR 10 eða um 1.550 kr. á gengi dagsins.





