Elvar Már og Martin hófu ferilinn sinn í háskólaboltanum í gærkvöldi með LIU Brooklyn háskólanum. Fyrsti andstæðingur Svartfuglanna var enginn annar en St. John’s háskólinn í Queens, sem höfðu unnið báða sína fyrstu leiki tímabilsins. Martin og Elvar byrjuðu báðir leikinn.
LIU er með lágvaxið lið með fjóra leikmenn í byrjunarliðinu undir tveimur metrum og einn miðherja sem er rétt yfir tveimur metrum. Leikskipulag LIU var að spila stífa liðsvörn og hleypa engu inn í teiginn. Keyrðu svo í hraðaupphlaup um leið og færi gafst.
Þetta gekk vel framan af. Elvar stýrði spilinu hjá Brooklyn og Martin keyrði ítrekað inn í teiginn og fann svo skyttur á köntunum. Vandamálið var að það var enginn að hitta.
LIU skaut alls 21/71 utan af velli sem gerir rétt undir 30% nýtingu. Mikið af þessum skotum voru þó varin af feiknarsterkum varnarmönnum St. John’s inni í teignum eða alls 14, en Brooklyn-liðar voru heldur ekki að hitta neitt fyrir utan.
Liðin skiptust oft á forystu í leiknum í fyrri hálfleik og varnarleikur LIU mikið að stríða heimamönnum. Staðan í hálfleik var 26-32 fyrir St. John’s og í upphafi seinni hálfleiks tókst LIU að ná forystunni en þá fór nýting þeirra fyrir utan að hrjá þá verulega þar sem St. John’s var að blokka nánast allt sem inn í teiginn kom. Þá fóru leiðir liðanna að skiljast og St. John’s jók forystuna jafnt og þétt þar til hún var orðin 13 stig í lok leiks, 53-66.
Elvar setti 6 stig, var með 5 stoðsendingar og 2 fráköst. Martin setti 4 stig, gaf 5 stoðsendingar og hirti einnig 2 fráköst. Þeir félagar hefðu vafalítið verið með nálægt 10 stoðsendingum hvor hefðu liðsfélagar þeirra komið boltanum oftar ofan í körfuna en vinirnir fundu liðsfélaga sína oft og mörgum sinnum í góðri stöðu undir körfunni.
Frábær byrjun hjá okkar mönnum þrátt fyrir tapið. Báðir virðast miklu meira en tilbúnir í verkið þarna úti. Spiluðu fantagóða vörn og voru öruggir í sóknarleiknum einnig. Elvar tók leiðtogahlutverkið alla leið sem leikstjórnandi liðsins.
Elvar eftir leikinn: “Það var gaman að fá að taka á móti svona sterku liði í fyrsta leik og hef ég aldrei á ævinni spilað við svona marga leikmenn í einu liði sem eru svona miklir íþróttamenn. Allir svakalega langir og hoppa út úr húsinu. Svo við þurftum að spila dálítið öðruvísi en við vildum. Við hægðum á leiknum og pökkuðum bara inni í teig í vörn vegna þess að þeir eru gríðarlega sterkir í transition svo í sókn áttum við að ráðast á miðjuna og reyna finna opin þriggja stiga skot sem mér fannst ganga bara allt í lagi.” Elvar sagðist vera feginn að vera byrjaður að spila aftur, fannst hann vera sjálfur pínu ryðgaður í upphafi og farinn að blása ansi mikið um tíma, “en það tekur nokkra leiki til að komast í almennilegt leikform. Við komumst ágætlega frá þessu og héldum í þá mest allan leikinn.”
Aðrir leikir hjá íslenskum leikmönnum fóru fram í gærkvöldi. Gunnar Ólafsson og St. Francis Terriers töpuðu fyrir Army háskólanum 74-71. Gunnar spilaði 12 mínútur fyrir St. Francis og gaf eina stoðsendingu. Kristófer Acox og félagar í Furman sigruðu Appalachian State auðveldlega 65-84 og skoraði Kristófer 14 stig, tók 10 fráköst og varði 1 skot.
Kristófer eftir leikinn: “Virkilega góður liðssigur. Við vorum að koma frá erfiðu tapi [gegn College of Charleston] síðustu helgi en sýndum okkar rétta andlit í kvöld og vorum virkilega mættir frá tip off.”



