spot_img
HomeFréttirVerðskuldaður sigur Þórs

Verðskuldaður sigur Þórs

Þórsarar unnu sannfærandi sigur á Skallagrím í leik liðanna í Þorlákshöfn í gærkvöld. Sigur Þórs var aldrei í mikilli hættu og höfðu þeir þægilega forystu eiginlega allan leikinn, án þess þó að ná að slíta sig langt frá Skallagrímsmönnum.
 
 
Heimamenn byrjuðu leikinn mun betur og leiddu með tólf stigum eftir fyrsta leikhluta. Sú forysta hélst að mestu óbreytt allt fram í fjórða leikhluta. Þá fengu Skallagrímsmenn smá blóð á tennurnar, rækilega studdir af stuðningsmönnum sínum. Á sama tíma hikstaði sóknarleikur Þórsara hressilega. Heimamenn náðu þó að ranka við sér áður en illa fór og munurinn varð aldrei minni en þrjú stig, í stöðunni 84-81. Þá slitu Þórsarar sig aftur frá gestunum úr Borgarnesi og enduðu á því að vinna tíu stiga sigur, 100-90.
 
Leikurinn í Þorlákshöfn var alls engin flugeldasýning og leikmenn beggja liða gerðu dágóðan slatta af mistökum. Þórsarar mættu þó einfaldlega klárari til leiks og sigur þeirra afar verðskuldaður. Skemmtilegustu tilþrif leiksins voru í boði Þórsarans Vincent Sanford, en hann sýndi stökkkraft sinn og tróð boltanum með miklum látum undir lok leiks.
 
Nemanja Sovic var stigahæstur í liði Þórs með 26 stig og 9 fráköst að auki. Vincent Sanford skoraði 25 stig, Tómas Heiðar 16, Baldur Þór 11 og Grétar Erlendsson setti 10 stig á sína gömlu félaga.
 
Í liði gestanna var Tracy Smith Jr. atkvæðamestur, en hann skoraði 34 stig og tók 13 fráköst. Sigtryggur Arnar Björnsson átti fantagóðan leik, skoraði 25 stig og sýndi oft og tíðum góð tilþrif.
 
Þórsarar komust með sigrinum upp í 3.-7. sæti deildarinnar en Skallagrímsmenn sitja á botninum ásamt Fjölni, með einungis einn sigur í fyrstu sjö leikjunum.
 
 
Umfjöllun/ AÞI
Mynd úr safni/ DÞG
  
Fréttir
- Auglýsing -