spot_img
HomeFréttirSjö í röð! Meistaramaskínan gefur ekkert eftir

Sjö í röð! Meistaramaskínan gefur ekkert eftir

Íslandsmeistarar KR eru við stýrið. Ekki aðeins í 93-78 sigri sínum á Haukum í kvöld heldur bara í boltanum almennt, röndóttir eru 28-1 í úrvalsdeildinni að meðtöldum deildarleikjum síðasta tímabils og hafa unnið sjö fyrstu leiki þessa tímabils. Þú ert ekkert meira við stýrið en þetta. Öflug blanda reyndra manna situr sem fastast á toppi deildarinnar og ekki útséð með að nokkur geti velt KR-ingum úr sessi. Síðasta deildartap KR kom í janúar á þessu ári gegn Grindavík!
 
 
Haukar áttu lipra spretti í kvöld, koðnuðu niður Ívari Ásgrímssyni til mikillar mæðu í fjórða leikhluta þegar kraftakallinn Craion fór af velli með fjórar villur. Þá var aðeins átta stiga munur á liðunum en „Tjakkurinn“ Helgi Magnússon tók þá við stýrinu og reif KR upp í 20 stiga mun.
 
Haukar hafa ekki unnið deildarleik í DHL Höllinni í 14 ár! Nú er ljóst að sú bið mun að minnsta kosti telja 15 ár. Sjö sigrar í röð hjá KR þetta tímabilið og jafnframt þriðji tapleikur Hauka í röð. Ungt lið Hafnarfjarðar á helling inni en það dugir skammt að mæta í DHL Höllina og láta ekki fyrir sér finna, nánast forðast það að fá villur.
 
Meistarar KR voru sprækir í upphafi leiks, Brynjar Þór Björnsson skildi Kára Jónsson oft eftir í reyk og var fljótt búinn að salla niður 10 stigum. Emil Barja var einnig að finna sig, sex stig og fimm stoðsendingar í fyrsta leikhluta. Glíma Craion og Francis var ekta en það voru KR-ingar sem leiddu 25-23 eftir fjörugan fyrsta hluta. Finnur Atli Magnússon gerði flautukörfu í fyrsta hluta eftir sóknarfrákast en fékk hana ekki skráða.
 
Röndótt vörnin gerði Haukum lífið leitt í öðrum leikhluta, Brynjar var enn við sitt heita heygarðshorn, kom KR í 30-25 með þrist. Kollegi hans, Darri Hilmarsson, var 0-5 í þristum í hálfleik, það þykja stórtíðindi á þeim bæ! Haukar voru máttlausir í sínum aðgerðum framan af öðrum leikhluta, hálfsmeykir við KR vörnina og að sama skapi voru gestirnir aðeins með fjórar villur eftir 16 mínútna leik, linkindin var sem sagt líka að há þeim í vörninni.
 
Haukur Óskarsson kom með langþráð stig fyrir Hauka þegar hann minnkaði muninn í 37-32 og tilþrif fyrri hálfleiksins átti „albatrosinn“ Hjálmar Stefánsson þegar hann varði glæsilega skottilraun hjá Craion í liði KR, mögnuð tilþrif! Kári Jónsson gerði sín fyrstu stig með langdrægum þrist og minnkaði muninn í 43-36 en Helgi Magg svaraði í sömu mynt og átti flotta rispu í öðrum hluta.
 
Staðan 48-38 fyrir KR í hálfleik og röndóttir á góðri leið með að viðhalda meðalskori sínu á heimavelli sem er um 101 stig á leik. Brynjar og Helgi voru báðir með 13 stig en Alex Francis með 11 í liði Hauka.
 
Haukar á hælunum, aftur við upphaf nýs leikhluta. Craion refsaði þeim með fjórum stigum í röð og KR skellti niður 10-3 dembu. Björn Kristjánsson kom aftur af bekknum með sterka rispu fyrir KR og þegar munurinn var að nálgast 20 stig (58-41) þá gerðu Haukar það sem kannski fæstir áttu von á, hófu að saxa á forskot meistaranna. Haukar snéru við 10-3 byrjun KR í 5-13 kafla sér í vil en KR-ingar leiddu engu að síður 69-58 fyrir fjórða og síðasta leikhluta.
 
Í fjórða leikhluta þurfti Craion snemma frá að víkja með fjórar villur og þá var munurinn á liðunum aðeins átta stig. Von fyrir Hauka… þangað til „Tjakkurinn“ Helgi Magnússon fór að skóla menn til. Helgi var gríðarlega öflugur í síðari hálfleik og tók við Craion-keflinu á loksprettinum og KR hreinlega eignaði sér lokasprettinn, kláruðu dæmið 93-78.
 
Craion með 20 stig og 8 fráköst og Helgi Magnússon með 19 stig, 10 fráköst og 3 stoðsendingar voru bestu menn KR í kvöld. Liðsvörnin öflug og þarna vantar enga hæfileika til að refsa andstæðingunum. Hjá Haukum var Francis með 20 stig, 11 fráköst og 5 stoðsendingar. Það reið ekki baggamuninn í kvöld en Francis var 2/6 í vítum, þetta á ekki að sjást! Kári Jónsson var lengi í gang en kláraði með 17 stig og Emil Barja kláraði með 11 stig og 5 stoðsendingar.
 
 
Mynd/ Einar Reynisson – Sjáið „Tjakkinn“
  
Fréttir
- Auglýsing -