spot_img
HomeFréttirÁtta í röð og afgreitt á 10 mínútum

Átta í röð og afgreitt á 10 mínútum

Íslandsmeistarar KR tróna á toppi Domino´s deildar karla með fullt hús stiga eftir fyrstu átta umferðirnar. KR hélt í Borgarnes í gærkvöldi og hafði þar stóran og öruggan sigur á Skallagrím. Lokatölur 82-113.
 
 
KR leiddi 26-27 eftir fyrsta leikhluta en svo var sett í fluggírinn. Annar leikhluti fór 11-37 fyrir KR og þar með var björninn unninn, næstu tveir leikhlutar voru áþekkir í tölum svo það er óhætt að segja að KR hafi afgreitt þetta á 10 mínútum.
 
Mike Craion þurfti 26 mínútur til að skila af sér 27 stigum og 9 fráköstum en fimm leikmenn KR gerðu 14 stig eða meira í leiknum. Næstur Craion kom Björn Kristjánsson með 20 stig og Pavel Ermolinskij bætti þrennu í safnið með 15 stig, 12 fráköst og 16 stoðsendingar.
 
Hjá Skallagrím var Sigtryggur Arnar Björnsson með 25 stig, 3 fráköst, 3 stoðsendingar og 3 stolna bolta og Tracy Smith Jr. bætti við 20 stigum og 11 fráköstum.
 
KR er á toppi deildarinnar með 16 stig en Skallagrímur vermir botninn með tvö stig eins og Fjölnir.
 
Mynd/ Ómar Örn Ragnarsson – Hér mætast stálin stinn enda jakar miklir þeir Smith og Craion.
  
Fréttir
- Auglýsing -