Fjör var á boðstólunum þegar Snæfell og ÍR mættust í tvíframlengdum spennuslag í Stykkishólmi í gærkvöldi. Heimamenn í Stykkishólmi unnu naumlega en það sem kannski færri vita er að tvíhöfði var á dagskrá þetta kvöldið þar sem Snæfell og ÍR mættust í drengjaflokki strax að loknum leik félaganna í Domino´s deildinni.
Einn dómara leiksins í drengjaflokki forfallaðist og þá voru góð ráð dýr, Ingi Þór Steinþórsson skoraðist ekki undan og vopnaði sig flautunni og dæmdi leikinn eftir að hafa rúllað í gegnum sex leikhluta með meistaraflokkinn.
Fjörið var hvergi nærri hætt því framlengja þurfti drengjaflokksleikinn sem ÍR vann síðan 68-71 svo félögin skildu jöfn í gærkvöldi og Ingi Þór þjálfari Snæfells lét sig ekki muna um að taka 11 leikhluta í einni beit – sannkallað maraþonkvöld í Hólminum í gær.
Ingi hefur um langa hríð gripið í flautuna, sem dæmi má nefna þá dæmdu hann og Leifur S. Garðarsson saman viðureign Víkverja og Léttis í Hagaskóla í 1. deild karla árið 1988. Léttir vann leikinn 103-69 svo dómgæslustörf Inga Þórs eru að minnsta kosti eru að minnsta kosti 26 ára gömul!
Mynd/ SBH – Ingi Þór að dómarastörfum í drengjaflokksleiknum í gær.



