Haukar unnu langþráðan sigur í Domino´s deild karla í kvöld þegar Njarðvíkingar komu í heimsókn. Njarðvíkingar fengu lokaskotið en það vildi ekki niður og Haukar fögnuðu því 67-66 sigri. Fyrir viðureign kvöldsins höfðu Haukar tapað síðustu þremur deildarleikjum sínum en Njarðvíkingar unnið tvo síðustu.
Viðureigning tafðist um nokkrar mínútur þar sem leikklukkan vildi ekki hlýða starfsmönnum ritaraborðsins og töfin varð snöggtum lengri þegar Dustin Salisbery fékk högg á síðuna og hlúa þurfti að honum eftir þetta klafs í fyrsta frákastinu. Allt komst þetta þó á skrið að endingu og fundu Njarðvíkingar sig betur á upphafsaugnablikunum og komust í 2-8.
Haukar slógu þó taktinn fljótlega og komust í 19-17 en laglegt samspil hjá Loga og Hirti Hrafni jafnaði leikinn 19-19 um leið og fyrsti leikhluti rann sitt skeið. Þessar fyrstu 10 mínútur voru nokkuð klafskenndar og mistækar en jafnar engu að síður.
Haukar unnu annan leikhluta 11-9 og leiddu 30-28 í hálfleik. Þessi annar leikhluti var vægt til orða tekið dapurlegur. Helstu tilþrif hans voru þegar ungviðið missti frisbydisk inn á völlinn fyrir slysni þegar 40 sekúndur voru til hálfleiks.
Dustin Salisbery var með 8 stig og 5 fráköst í liði Njarðvíkinga í hálfleik og Haukur Óskarsson var með 9 stig og 5 fráköst í liði Hauka. Eftir þennan annan leikhluta gátu gæði leiksins einfalda ekki gert annað en rjúka upp á við.

Njarðvíkingar komu inn í síðari hálfleikinn og vildu keyra leikinn upp, Mirko Stefán var að finna sig hjá grænum og gerði sjö fyrstu stig gestanna í þriðja leikhluta. Að sama skapi var Kristinn Marinósson einnig beittur hjá Haukum. Emil Barja komst loks á blað í stigaskorinu fyrir Hafnfirðinga er hann jafnaði leikinn 39-39 á vítalínunni en fyrstu 30 mínútur leiksins tók Emil hvorki teigskot né þriggja stiga skot!
Alex Francis reyndist Njarðvíkingum erfiður og labbaði í gegnum grænu vörnina nokkurn veginn þegar honum hentaði en Salisbery í liði grænna fór loks að hitta og með sjö stigum í röð fyrir Njarðvíkinga náði hann að minnka muninn í 51-48 og þannig stóðu leikar fyrir fjórða og síðasta kaflann.
Í fjórða leikhluta fór mestur sóknarleikur Njarðvíkinga í gegnum Dustin Salisbery en honum hitnaði með hverri mínútunni. Grænir voru engu að síður að fara illa með boltann og Haukar áttu oftar en ekki 1-5 stiga forskot á gesti sína. Loks kom þó að því að Dustin jafnaði 64-64 fyrir Njarðvíkinga. Úr varð á lokasprettinum að Njarðvíkingar þurftu að senda heimamenn á vítalínuna. Þá varð Emil Barja fyrir valinu og sendu Haukar honum boltann í tvígang þar sem Njarðvíkingar brutu og hann setti aðeins niður 1 af 4 vítaskotum! Seinni tvö vítin vildu ekki niður og Salisbery náði frákastinu og brunaði upp og komst í skot sem vildi ekki niður né heldur „tip-in“ frákasttilraun Ólafs Arons Ingvasonar svo Haukar hirtu stigin.
Nokkuð furðuverk þessi leikur kvöldsins en liðin gáfu áhorfendum skemmtilegan lokasprett þar sem neglur voru nagaðar. Francis var Njarðvíkingum erfiður með 20 stig og 5 fráköst og Haukur Óskarsson bætti við 15 stigum og 8 fráköstum. Hjá Njarðvík var Salisbery með 26 sti og 10 fráköst en nýtingin hans var lítið til að hrópa húrra fyrir. Mirko Stefán Virijevic bætti svo við 12 stigum og 7 fráköstum.
Myndir/ Axel Finnur og Jón Björn



