spot_img
HomeFréttirFyrsti sigur Fjölnis á Keflavík í Dalhúsum síðan 2006

Fyrsti sigur Fjölnis á Keflavík í Dalhúsum síðan 2006

Fjölnismenn mættu ákveðnir til leiks í Dalhúsum í kvöld, hungraðir í að landa öðrum sigri sínum í deildinni á þessu tímabili. Arnþór Freyr Guðmundsson setti niður fyrstu körfu leiksins fyrir Fjölni en Keflvíkingar svöruðu um mínútu seinna með þristi frá William Graves.
 
 
Keflvíkingar leiddu næstu mínúturnar en á sjöundu mínútu urðu vatnaskil í leiknum þegar Garðar Sveinbjörnsson skoraði tveggja stiga körfu og fékk vítaskot að auki. Hann misnotaði vítaskotið en Fjölnismenn náðu frákastinu og enduðu sóknina á þriggja stiga körfu. Fimm stiga sókn hjá Fjölni og munurinn kominn niður í 1 stig, 9-10. Jafnræði var með liðunum það sem eftir lifði leikhlutans en þriggja stiga flautukarfa Árna Elmars Hrafnssonar tryggði Fjölni 4 stiga forskot eftir fyrsta leikhlutann, 23-19.
 
Fyrstu mínútur annars leikhluta einkenndust af baráttu þar sem Keflvíkingar nældu sér í fjórar villur á eins og hálfs mínútna kafla. Keflvíkingar komust yfir um miðbik leikhlutans en hungrið virtist vera Fjölnismanna og fór svo að þeir leiddu með 4 stigum í hálfleik, 42-38.
 
Liðin nýttu skot sín vel í þriðja leikhluta og leikurinn var í járnum. Keflvíkingar komust yfir um miðjan leikhlutann með sniðskoti frá William Graves en Fjölnismenn sigu eftir það fram úr og leiddu með 9 stigum í lok leikhlutans, 72-63. Keflvíkingar mættu sprækir til leiks í fjórða leikhluta og var munurinn kominn niður í tvö stig þegar um 5 mínútur voru eftir. Fjölnismenn voru hins vegar ekki tilbúnir til að láta forskotið af hendi og lönduðu að lokum 12 stiga baráttusigri, 93-81. 
 
Sigur Fjölnis í kvöld var sá fyrsti á Keflavík í Dalhúsum í deildarleik síðan 2006 eða fyrir um átta árum síðan.
 
 
  
Fréttir
- Auglýsing -