spot_img
HomeFréttirHamar hafði betur í 1. deildar slagnum

Hamar hafði betur í 1. deildar slagnum

Lið Hamars lagði Skagamenn í kvöld í 16 liða úrslitum Powerade-bikars KKÍ, en liðin mættust í Býflugnabúinu á Akranesi. Nafn Hamars verður því í pottinum þegar dregið verður í 8 liða úrslitin næstkomandi þriðjudag.
 
 
Leikurinn fór rólega af stað. Bæði liðin voru varfærin í byrjun og léku góða vörn. Hamarsmenn voru þó ákveðnari þegar leið á fyrsta fjórðung og höfðu fjögurra stiga forystu að honum loknum, 18:14.
 
Annar leikhluti var svipaður og einkenndist, líkt og leikurinn allur, af mikilli baráttu. Skagamenn náðu góðum kafla í lok hálfleiksins og náðu að jafna 34:34 þegar skammt var eftir. Hamarsmenn skoruðu hins vegar síðustu körfu hálfleiksins og leiddu að honum loknum 36:34.
 
Þriðji leikhlutinn reyndist eins og svo oft í vetur banabiti Skagamanna. Þeir virtust ekki ná takti í sinn leik, hvorki sóknarlega né í vörn og Hvergerðingar gengu á lagið. Hamar hafði yfir fyrir loka fjórðunginn 60:48.
 
Sóknarleikur Skagamanna lagaðist í síðasta fjórðung og náðu þeir að minnka muninn niður í 5 stig þegar skammt lifði leiks. Vörnin hélt hins vegar ekki eins vel og náðu því heimamenn í raun aldrei almennilega að ógna sigri Hamars, sem verður að teljast sanngjarn þegar á allt er litið. Lokatölur voru 80-72 Hamar í vil.
 
Stigahæstir Skagamanna voru Zachary Jamarco Warren með 25 stig, Ómar Örn Helgason með 18 og Fannar Freyr Helgason með 14 stig en hann tók að auki 14 fráköst.
 
Hjá Hamri var Þorsteinn Gunnlaugsson með 23 stig og 13 fráköst og Julian með 20 stig og 12 fráköst.
  
 
Mynd/ Jónas H. Ottósson
Fréttir
- Auglýsing -