Ég hef lengi haldið því fram að Síkið á Sauðárkróki sé erfiðasti útivöllur á Íslandi. Hef þó aðeins byggt það á eigin tilfinningu frekar en staðreyndum. Sjálfur hef ég nokkrum sinnum spilað þar og aldrei liðið neitt sérstaklega vel þar inni á vellinum. Húsið er byggt að mörgu leyti eins og hringleikahús þar sem áhorfendur geta staðið á svölum hringinn í kring um völlinn og horft niður á gestina berjast fyrir lífi sínu líkt og skylmingaþrælar á tímum Rómaveldis – bíðandi eftir þumlinum upp eða niður.
Nú ætla ég að fullyrða hið sama en að þessu sinni rökstutt af tölfræði.
Tindastóll er, eins og flestir ættu að vita, í öðru sæti deildarinnar með 8 sigurleiki gegn 1 tapleik. Eini tapleikur liðsins kom eftir framlengingu í DHL höllinni gegn KR, sem situr taplaust í efsta sæti.
Tindastóll hefur spilað fjóra leiki í Síkinu í vetur – allt gegn liðum sem væru í úrslitakeppninni ef hún myndi hefjast í dag. Tindastóll hefur sigrað alla þessa leiki og ekki bara sigrað þá, heldur gjörsigrað.
Meðalstigamunur hjá Tindastól á heimavelli er +20,3 stig. Þeir skora að meðaltali 99,3 stig í leik þar og fá á sig 79,0 stig. 79,0 stig er lágt stigaskor andstæðings en engan veginn óþekkt stærð í deildinni. T.d. leyfa Haukar aðeins 79,2 og Stjarnan 80,6. Andstæðingar Njarðvíkur skora aðeins 77,0 stig í Ljónagryfjunni.
Tindastóll spilar hraðan bolta eða með Pace 87,8 að meðaltali í Síkinu og það getur blekkt þegar skoðað er stigaskor liða.
Með hraðann til hliðsjónar sést að Tindastóll skorar 114,4 stig per 100 sóknir í Síkinu og fær á sig einungis 88,8. Þetta eru hæstu og lægstu gildi í allri deildinni. Næstir þeim koma KR með 112,8 og 90,9 í DHL höllinni. Ef við skoðum muninn á milli stigaskors Tindastóls og andstæðinga þeirra per 100 sóknir er munurinn enn meiri, eða +25,7 stig.
Tindastóll hefur líka bestu sóknarnýtingu allra í deildinni á heimavelli með 55% en sóknarnýting andstæðinga þeirra er aðeins 40,2% – það langsamlega lægsta í deildinni.
Þetta vekur eflaust furðu þar sem skotnýting liða í Síkinu það sem af er leiktíðinni er ekki af verri endanum. 49,5% eFG% og 42,0% nýting í þriggja stiga skotum. Lykillinn liggur hins vegar í töpuðum boltum því andstæðingar Tindastóls í Síkinu tapa að meðaltali 22 boltum í leik. Það eru tölur sem sjást varla í efstu deild. Næstir Tindastól í þessum efnum eru andstæðingar Njarðvíkinga með 16,8 tapaða.
Þarna spilar hraði leiks líklegast stóra rullu og þurfa lið eins og KR og Haukar sem eru að berjast um efstu sætin ásamt Tindastól að hafa í huga þegar þau halda norður yfir fjall til að skylmast við Tindastól í Síkinu.



