spot_img
HomeFréttirEkki frítt á Haukar-Tindastóll fyrir gestina

Ekki frítt á Haukar-Tindastóll fyrir gestina

Haukar birtu þessa auglýsingu fyrir leikinn milli Hauka og Tindastóls sem leikinn var á Ásvöllum í gærkvöldi, þar sem verslunin Fjarðarkaup ætlaði að bjóða “stuðningsmönnum” á leikinn. Stuðningsmenn Tindastóls sáu sér gott til glóðarinnar og ætluðu að kíkja fyrst Fjarðarkaup bauð svona rausnarlega.
 
Annað kom upp hins vegar upp á teninginn.
 
Stefán Jónsson, formaður körfuknattleiksdeildar Tindastóls birti þessa færslu á Facebook í kjölfarið:
 
“Leikur Hauka og Tindastóls var auglýstur á heimasíðu Hauka, Fjarðarkaup býður þér á Haukar – Tindastóll. Ef einhverjir auglýsa að frítt sé á leik þá er það bara flott mál og vel gert af viðkomandi fyrirtæki. Margir stuðningsmenn Tindastóls sáu sér fært að mæta á Ásvelli til að hvetja sína menn, enda um stórleik að ræða og búið að auglýsa frítt á leikinn í boði Fjarðarkaups. Þegar á leikstað var komið þá voru stuðningsmenn Tindastóls spurðir að því með hvaða lið þeir héldu, ef þú hélst með Tindastól þá þurftir þú að greiða 1500.kr inn á leikinn. Ég skil ekki alveg hvað Haukar eru að meina með þessu að auglýsa frítt á leikinn og rukka svo áhorfendur aðkomuliðsins, hefði þá kannski átt að hafa auglýsinguna að frítt væri fyrir stuðningsmenn Hauka en ekki stuðningsmenn Tindastóls. Tel ég þetta vera afar óheppilegt hjá Haukum og ekki boðlegt á nokkurn hátt að auglýsa eitthvað sé frítt og standa svo alls ekki við það.”
 
Ekki er hægt, með óyggjandi hætti, að lesa út úr tilkynningu Hauka um hvaða stuðningsmenn er verið að ræða, en ljóst er að hún olli miður skemmtilegum misskilningi.
 
Ekki náðist í formann né varaformann körfuknattleiksdeildar Hauka við vinnslu fréttarinnar.
 
** Uppfært kl. 21:29 **
 
Magnús Ingi Óskarsson, formaður meistaraflokksráðs körfuknattleiksdeildar Hauka hafði samband við Karfan.is og sagðist harma mistökin. Upprunalega hafi verið birt auglýsing í Fjarðarpóstinum (sjá bls. 8) þar sem hægt var að klippa út miða og nota sem aðgöngumiða á leiknum. Auglýsingin á Haukar.is væri hins vegar röng.
 
Hann vildi einnig koma eftirfarandi á framfæri:
 
“Ég var kynnir á leiknum og þakkaði Fjarðarkaupum fyrir í leikslok en var ekki nógu nákvæmur í minni kynningu þannig að mátti skilja að frítt væri á leikinn fyrir alla í boði Fjarðarkaupa.  Ég harma þessi mistök mín, það var síst af öllu meining okkar Haukamanna að koma illa fram við gesti okkar úr stuðningsmannaliði Tindastóls. Við bjóðum alla gesti velkomna á Ásvelli og viljum að þeim líði vel þar.  Skemmtileg stemming þar sem báðir stuðningsmannahópar hvetja sín lið gerir leikinn og upplifun allra skemmtilegri. Það var mjög ánægjulegt að sjá góðan hóp fylgja Tindastól á þennan leik og hvetja sitt lið á jákvæðum nótum.

Við biðjum stuðningsfólk Tindastóls innilega afsökunar á þessum misskilningi.”
Fréttir
- Auglýsing -