spot_img
HomeFréttirTroðslur og þristar banamein Njarðvíkinga

Troðslur og þristar banamein Njarðvíkinga

Fimm lið skipa nú 4.-8. sæti Dominos-deildarinnar, öll með fimm sigurleiki til þessa. Tvö þeirra, Stjarnan og Njarðvík, áttust einmitt við í kvöld í Ásgarði og freistuðu þess að næla sér í sjötta sigurinn og um leið fjórða sætið óskipt, a.m.k. um stundar sakir. Svali, Valtarinn, Fiskikóngurinn, Herra Garðabær og Teitur Örlygs í húsinu ásamt allmörgum öðrum gestum og útlit fyrir gott kvöld.
 
Leikurinn fór fjörlega af stað og undirritaður fékk strax á tilfinninguna að leikurinn ætti eftir að haldast í járnum. Meistari Shouse fór fyrir sínum mönnum í leikhlutanum en landsliðsmaðurinn Logi hafði í fullu tré við hann og settu þeir báðir 11 stig í honum. Heimamenn höfðu nefbroddinn á undan gestunum en með svakalegum þristi Loga einhvers staðar frá Vogum á Vatnsleysuströnd og góðum endaspretti var hnífjafnt, 24-24, eftir 10 mínútna leik.
 
Gestirnir mættu ákveðnir til leiks í öðrum leikhluta og héldu nokkurra stiga forystu. Sóknarleikur Njarðvíkur var gullfallegur á köflum – frábær boltahreyfing sem býr gjarnan til góð skot. Boltinn var hins vegar ekki mikið fyrir það að andskotast í gegnum hringinn. Þrátt fyrir umtalsvert af sóknarfráköstum gestanna dugði það ekki heldur til að breikka bilið að ráði. Heimamenn máttu prísa sig sæla að vera aðeins 5 stigum undir í hálfleik, 36-41. Varnarleikur Stjörnumanna hefði mátt vera grimmari og sóknarlega byggðist flest á snilld Shouse og Frye.
 
Njarðvíkingar gáfu ekkert eftir og komu sér fljótt í átta stiga forskot, 42-50. Enn voru Shouse og Frye að halda heimamönnum inn í leiknum meðan gestirnir fengu ívið breiðara framlag, m.a. var Snorri að skila fínum molum fyrir þá og Salisbery var heitur í leikhlutanum. Staðan 57-63 fyrir lokafjórðunginn en það er ekki mikið forskot í hinni fögru íþrótt körfuknattleik.
 
Marvin opnaði fjórða leikhluta með flottum þristi og Ágúst Angantýsson svaraði einnig kallinu með mjög svo athyglisverðri troðslu í næstu Stjörnusókn. Þetta var einmitt það sem heimamenn þurftu og allt í einu var stemmningin öll að færast til heimamanna. Með stemmingunni virtist ákefðin koma í vörn þeirra og alvarleg liðagigt hlaupin í sóknaraðgerðir gestanna. Þó var það ekki fyrr en rétt um miðjan leikhlutann sem Dagur Kár jafnaði leikinn, 71-71 með sauðfeitum þristi. Jón Orri ákvað að fylgja fordæmi Ágústs og troða yfir Njarðvíkinga í kjölfarið. Fyrir það fást vissulega bara tvö stig á töfluna en fullt af stigum á hina andlegu ósýnilegu og hugboð undirritaðs að gestirnir ættu erfitt með að svara þessu. Um mínútu síðar hafði svo Marvin splæst í annan þrist, rétt um tvær mínútur eftir og staðan þá 78-73. Ágúst Angantýsson hefði svo samkvæmt mynstrinu átt að troða í næstu sókn en setti í staðinn enn einn þristinn, spjaldið ofaní, ókallað. Það er næstum því ólöglegt en taldi og staða gestanna orðin býsna snúin. Þrjátíu sekúndum síðar kláraði Dagur svo leikinn með enn einum þristinum, staðan 84-77 og sigurinn í höfn. Lokatölur voru 87-80.
 
Skemmtilegur leikur á enda og vel til þess falinn að vera sjónvarpað. Njarðvíkingar þurfa aldeilis ekki að skammast sín fyrir sína frammistöðu. Þau eru fá liðin sem myndu þola það að fá á sig þrista og troðslur til skiptis ítrekað þegar mest ríður á í lokaleikhlutanum! Stjörnumenn fengu jafnframt framlag frá fleirum í lokin – Marvin, Dagur, Ágúst og Jón Orri gengu þá fram fyrir skjöldu og aðstoðuðu Shouse og Frye myndarlega við að draga sigurinn í höfn.
 
Umfjöllun: Kári Viðarsson
 
Mynd: Dagur Kár Jónsson átti mikilvæga körfu í lok leiks. (Axel Finnur)
Fréttir
- Auglýsing -