spot_img
HomeFréttirNaumur sigur ÍA á vítalínunni

Naumur sigur ÍA á vítalínunni

Aðdragandi leiksins var langur og erfiður.  Sökum óveðurs var honum frestað þar til í kvöld, en upphaflega átti hann að fara fram í gær, sunnudag klukkan 16.  Þrátt fyrir að veðrið og færðin væri ekki eins og best verður á kosið lögðu Skagamenn af stað í hádeginu í dag, með einungis átta leikmenn.  Aðrir höfðu engin tök á þessu ferðalagi á þessum degi vegna vinnu og náms.  Það hlýtur því að teljast afrek að sækja sigur á útivöll, sem ekki hefur náðst síðan 2010.
 
Í upphafi leiks var jafnræði með liðunum.  Þau skiptust á að hafa forystuna þar til um miðjan 1. fjórðung þegar heimamenn náðu góðum kafla með Frisco Sandridge í farabroddi.  Hann skoraði mikið og tók öll fráköst sem hann vildi að því er virtist.  Eftir 1. leikhluta voru Þórsarar komnir með 9 stiga forskot, 25-16.
 
2. leikhluti hefur reynst Skagamönnum vel í vetur og í kvöld var engin undantekning.  Þeir mættu afar ákveðnir til leiks á ný og átu upp forskot heimamanna, með Zachary Warren og Áskel Jónsson í fararbroddi.  Í hálfleik voru gestirnir komnir með eins stigs forystu, 43-44.
 
Þriðji leikhluti hefur að undanförnu reynst leikmönnum ÍA erfiður og því var gaman fyrir Skagamenn sem fylgdust með að í þessum leik, þrátt fyrir erfitt ferðalag, náðu gestirnir að halda sjó og munaði þar mestu um góðan leik Áskels Jónssonar sem skoraði 10 stig í fjórðungnum.  Staðan fyrir lokaleikhlutann 63-69, ÍA í vil.
 
Það var augljóst að Þórsarar ætluðu að selja sig dýrt og hófu þeir lokafjórðunginn með miklum látum, minnkuðu muninn hratt og jöfnuðu á einni mínútu.  Eftir það var mikið jafnræði með liðunum og einkenndist leikurinn af mikilli spennu, þar sem liðin misnotuðu skot og töpuðu boltanum á víxl.  Það var fljótt augljóst að andlegur styrkur liðanna myndi ráða úrslitum.  Skagamenn höfðu þó alltaf örlítið frumkvæði og leiddu með 5 stigum þegar fjórar og hálf mínúta lifði leiks.  Þórsarar gerðu þá lokaatlögu og náðu að jafna 82-82 þegar 49 sekúndur voru eftir.  Þá upphófst æsispennandi lokakafli þar sem bæði lið misnotuðu þriggja stiga skot, en þegar 2 sekúndur voru eftir braut Frisco Sandridge á Áskeli Jónssyni sem fór á vítalínuna.
 
Þeir sem þekkja til hans vita að hann virðist ekki skynja á nokkurn hátt hvað pressa eða spenna er.  Þegar allt er undir skilar hann sínu fyrir liðið.  Hann setti fyrra vítið niður og misnotaði hið síðara sem gerði heimamönnum erfitt fyrir að svara, sem þeim tókst ekki og 82-83 sigur staðreynd.
 
Þór Ak.-ÍA 82-83 (25-16, 18-28, 20-25, 19-14)
Þór Ak.: Frisco Sandidge 26/21 fráköst/5 stoðsendingar, Vic Ian Damasin 18, Einar Ómar Eyjólfsson 11/6 fráköst, Arnór Jónsson 8, Svavar Sigurður Sigurðarson 7/6 fráköst, Elías Kristjánsson 7, Daníel Andri Halldórsson 5, Jón Ágúst Eyjólfsson 0/5 stoðsendingar, Stefán Vilberg Leifsson 0, Bergur Sverrisson 0. 
ÍA: Zachary Jamarco Warren 28/9 stoðsendingar, Áskell Jónsson 25/5 fráköst, Fannar Freyr Helgason 10/10 fráköst, Magnús Bjarki Guðmundsson 7, Birkir Guðjónsson 6, Jón Rúnar Baldvinsson 4, Oddur Helgi Óskarsson 3, Þorleifur Baldvinsson 0/6 fráköst. 
 
Umfjöllun ÍA
 
Fréttir
- Auglýsing -