Vefsíðan Eurobasket.com greindi frá því í dag að ísraelska liðið Maccabi Bazan Haifa væri nærri því að landa samningum við Keflvíkinginn William Graves. Sævar Sævarsson varaformaður Keflavíkur sagði við Karfan.is að Ísraelarnir hefðu virkjað ákvæðið sem var í samningi Graves að ef rétt upphæð bærist væri honum heimilt að fara frá Keflavík.
Ekkert mun enn vera komið á hreint með stöðu mála en svo gæti farið að Graves yrði ekki með Keflavík gegn Haukum í lokaleik Domino´s deildar karla fyrir jól.
Sigurður Ingimundarson þjálfari Keflavíkur sagði einnig í snörpu samtali við Karfan.is að þetta væri vissulega ekki kjörstaða enda liðið orðið fyrir öðrum skakkaföllum á tímabilinu.
Sævar sagðist ekki vita til þess hversu oft þetta hefði gerst í íslenska boltanum að leikmenn væru borgaðir út úr samningum og inn í stærri deildir. „Vonandi okkar vegna hætta Ísraelarnir við þetta en hans vegna þá er það ljóst að leikmaðurinn er að fara upp um nokkur aukaþrep í styrkleika og fá mun meira í vasann en íslenska deildin ræður við,“ sagði Sævar en ítrekaði að enn væri ekki búið að ganga frá neinum málum.
Á léttari nótum sagði Sævar: „Það væri óskandi að fjármálaráðherra kæmi á gjaldeyrishöftum sem virkuðu í öfuga átt, að við gætum ekki tekið við dollurum,“ sagði Sævar sposkur sem þýðir vitaskuld að Graves kæmist ekki frá borði í Keflavík.
William Graves hefur leikið 10 leiki með Keflavík og gert í þeim 22,9 stig að meðaltali í leik, tekið 8 fráköst og verið með 2,8 stoðsendingar og jafnarframlag upp á 20,6 framlagsstig. Maccami Haifa er í tíunda sæti ísraelsku deildarinnar en ísraelska úrvaldeildin telur tólf lið og Haifa með fjóra sigra og átta tapleiki það sem af er leiktíðinni.



