Aðeins 10 dögum eftir að Stjarnan flengdi ÍR út úr bikarnum, mætast þessi lið aftur og nú í Hertz-hellinum. Stjarnan kokhraust eftir öruggan sigur í Ásgarði og ÍR-ingar sárir eftir tapið og einnig tapið gegn Haukum í deildinni þar áður. ÍR-ingar hreinlega þurftu að fara í jólafríið með þessi tvö stig sem í boði voru.
Stjarnan, sem þurti einnig sigur til að halda sér í toppbaráttunni, fór hins vegar heim með stigin og sluppu með skrekkinn eins og nágrannar þeirra í Haukum gerðu fyrr í mánuðinum, eftir erfiðan leik í Hertz-hellinum.
Leikur liðanna var ansi köflóttur. Liðin sigruðu tvo fjórðunga hvort, sitt á hvað. Leikurinn hófst með spretti frá Stjörnunni sem setti nánast allt niður fyrir innan þriggja stiga línuna en ekkert fyrir utan. Þessu var öfugt farið hjá ÍR þar sem sóknin þeirra í teignum gekk illa en þeir voru að setja skotin sín fyrir utan. Það var einna helst getuleysi Stjörnunnar í fráköstum sem hélt ÍR inni í myndinni í fyrri hálfleik.
ÍR-ingar hirtu 11 sóknarfráköst í fyrri hálfleik og var þetta einna helst farið að minna á frammistöðu Stjörnunnar gegn Njarðvík á mánudaginn var. ÍR nýtti hins vegar ekki þessi aukafæri sem þeim voru færð nægilega vel. Skutu 13/40 í fyrri hálfleik og 37,6% eFG%.
Sóknarleikur Stjörnunnar var heldur ekki upp á marga fiska fyrir leikhlé, þrátt fyrir góða nýtingu, en þeir töpuðu 7 boltum á fyrstu 20 mínútunum – alls 17 í leiknum.
Loki var slegið fyrir körfuna hjá ÍR í þriðja hluta þar sem ekkert vildi ofan í. Nánast öll færi illa nýtt þó að þeim hafi tekist að halda boltanum þokkalega. ÍR skoraði aðeins 0,53 stig per sókn í upphafi seinni hálfleiks sem eru skammarlegar tölur. Stjörnumenn létu aftur á móti rigna. 9/15 utan af velli en munurinn hefði verið töluvert meiri í lok þriðja hluta en 49-61 hefðu þeir ekki tapað boltanum alls 6 sinnum á þessum 10 mínútum eftir leikhlé.
ÍR-ingar virðast spila best þegar bakið er neglt upp við vegginn og þannig varð úr í fjórða hluta. Skotum rigndi niður úr öllum áttum og skoruðu heimamenn 29 stig í lokarammanum, eða 1,37 per sókn. Stjarnan nýtti færi sín í teignum vel en tilraunir þeirra fyrir utan fóru allar forgörðum.
Töluverð spenna varð svo á lokamínútunni þar sem ÍR réðst til atlögu með Matthías Orra í broddi fylkingar. Risastór þristur frá Matthíasi kom ÍR einu stigi undir með 40 sekúndur eftir af leiknum. Kristján Pétur stal svo boltanum af Degi Kára og kom ÍR einu stigi yfir með sniðskoti úr hraðaupphlaupi. Kristján Pétur fékk svo dæmda á sig óíþróttamannslega villu fyrir brot á Jóni Orra sem fór á línuna með tvö skot og Stjarnan með boltann á eftir.
Jón Orri brenndi hins vegar af báðum skotunum en bætti vel og vandlega fyrir það með að setja boltann ofan í körfuna í næstu sókn á eftir.
ÍR fékk leikhlé í stöðunni 78-79 með tæpar tvær sekúndur eftir af leiknum. Matthías endaði með boltann í galopnu þriggja stiga skoti, beint fyrir framan körfuna þar sem hann hafði hitt vel framan af, en boltinn skoppaði af hringnum. Sigur Stjörnunnar staðreynd og enn eitt nauma tapið hjá Breiðhyltingum sömuleiðis.
Hjá Stjörnunni var Dagur Kár stigahæstur með 17 stig. Fast á eftir honum kom Jarrid Frye með 16 stig og 12 fráköst. Hjá ÍR var Sveinbjörn Claessen með 20 stig, 4 fráköst og 5 stoðsendingar. Matthías Orri átti einnig mjög góðan leik þótt illa hafi gengið að koma boltanum í körfuna, innan við þriggja stiga línuna. Hann skoraði 17 stig, skaut 4/8 í þriggja, tók 5 fráköst og gaf 6 stoðsendingar.
Molar:
ÍR hefur tapað öllum leikjum sínum á heimavelli í vetur og með að meðaltali 4 stiga mun í hverjum leik. Sitja nú á botni deildarinnar með Fjölni og Skallagrími.
Þetta er þriðji leikurinn í röð sem ÍR tapar með 5 stigum eða minna í Hellinum.
Hamid Dicko, leikmanni ÍR, tókst að fá 3 villur á 22 sekúndna tímabili. Var með 4 villur á 4 mínútna spilatíma í fyrri hálfleik.
Stjarnan hefur unnið 4 af síðustu 5 leikjum sínum og situr nú í 3 sæti en Haukar eiga enn leik inni.
Daði Lár, bróðir Dags Kár, var á bekknum hjá Stjörnunni og á skýrslunni, en hann er kominn heim í jólafrí frá Bandaríkjunum þar sem hann er í námi.



