spot_img
HomeFréttirKR í úrslitin eftir erfiðan leik við Tindastól

KR í úrslitin eftir erfiðan leik við Tindastól

Það beið mikið og erfitt verkefni honum Israel Martin, þjálfara Tindastóls þegar hann og hans föruneyti mættu í DHL höllina í kvöld. Það var ljóst að Myron Dempsey yrði hálfur maður með skothöndina meidda og fleiri leikmenn voru meiddir lítillega. Ekki minna verkefni beið Finns þjálfara KR sem sat undir mestri pressunni, hafandi tapað gegn Tindastól í Síkinu í síðasta mánuði og rétt sigrað þá svo í framlengdum leik í DHL.
 
Það er hrein unun að horfa á þessi lið spila körfubolta. KR-ingar án jafnoka í fágaðri spilamennsku og skilvirkum leik, en Tindastóll með frábæran varnarleik og skilja ekki orðið “uppgjöf”. 
 
Hvorugt liðið ætlaði að láta þennan leik eftir, alveg frá upphafi. KR-ingar sölluðu niður bombum utan þriggja stiga línunnar en Stólarnir voru sterkari inni í teignum í 1. hluta. Í 2. hluta snérust hlutverkin að einhverju leyti við. KR-ingum gekk betur að skora í teignum en nýttu það allt of sjaldan því lélegt skotval og ótímabær skot drógu úr skilvirkni liðsins. Pavel lenti í villuvandræðum og þurfti að dvelja lengi vel utanvallar. Tindastóll hitti einnig hræðilega eða 5/17 í 2. hluta.
 
Ótrúleg þriggja stiga karfa frá Helga Frey frá vinstri vængnum þegar flautað var til hálfleiks kom Tindastól upp í 35 stig og þá aðeins 9 stigum frá KR í hálfleik, 44-35.
 
Skotval KR-inga háði þeim einnig í 3. hluta en sóknarfráköst héldu þeim alltaf skrefinu framar en Tindastóll. En sama hvað KR reyndi að toga sig frá þeim, komu Tindastólsmenn bara með risastóra þrista úr ómögulegum færum til að halda sér á hælum heimamanna. Eftir 30 mínútur af leiktíma voru KR aðeins 7 stigum yfir eða 67-60 og Tindastólsmenn enn í myndinni, þrátt fyrir takmarkaða þátttöku hjá Myron Dempsey fram að þessu. 
 
Í 4. hluta fóru villuvandræði að há Tindastóli og menn að detta á bekkinn með 5 villur. Alls voru dæmdar 29 villur á gestina og fengu KR-ingar 37 vítaskot í leiknum sem þeir nýttu til að skora rúmlega 35% stiga sinna í heildina. KR nýtti sér villuvandræði Tindastóls einnig á annan hátt með að taka 7 sóknarfráköst í 4. hluta og skora úr þeim 9 stig. 
 
Þrátt fyrir þessar ófarir tókst Tindastól samt að halda sér inni í leiknum með því að þvinga 5 tapaða bolta á KR og enn fleiri risastórum þriggja stiga skotum. Eitt þeirra kom þegar 46 sekúndur voru eftir af leiknum frá Ingva Rafni og kom Tindastól upp í 83-78.
 
Eftir leikhlé þegar hálf mínúta var eftir af leiknum spiluðu KR frábæra vörn á Tindastól og útilokaði allar tilraunir þeirra til að vinna leikinn. Sigurinn var í höfn, 88-80 og KR á leiðinni í Laugardalshöllina þar sem þeir eiga stefnumót við Stjörnuna 21. febrúar nk.
 
Enn einn dagurinn á skrifstofunni fyrir Michael Craion sem setti 26 stig og tók 16 fráköst, þar af 8 í sókn. Pavel Ermolinski átti einnig frábæran leik fyrir KR með 19 stig og 8 fráköst. Hitt vel utan af velli eða 7/14 og þar af 3/7 í þristum.
 
Darrel Lewis leiddi gestina með 18 stig og 2 varin skot, en Ingvi Rafn kom næstur með 13 stig, en 9 af þeim sótti hann af þriggja stiga línunni þaðan sem hann skaut 3/6 í leiknum. Lítið fór fyrir Myron Dempsey í leiknum, bæði hvað mínútur varðar og einnig tölfræði en hann gat lítið skotið og sást einnig hvað höndin var að trufla hann í þeim tveimur vítaskotum sem hann tók í leiknum. Hann tók þó 8 fráköst á þeim 20 mínútum sem hann spilaði.
 
Fréttir
- Auglýsing -