spot_img
HomeFréttirStórsigur í Síkinu

Stórsigur í Síkinu

 
Leikur Tindastóls og ÍR í Dominos deildinni í kvöld náði aldrei að verða spennandi, slíkir voru yfirburðir heimamanna. Jafnræði var þó fyrstu mínúturnar en þegar staðan var 13-11 fyrir heimamenn eftir rúmlega 4 mínútur settu þeir vélina í gang og náðu 17-1 kafla og hreinlega stungu af. Allt í einu var staðan orðin 30-12 og nánast formsatriði að klára leikinn. ÍR-ingar löguðu stöðuna þó aðeins með því að skora 4 síðustu stig fjórðungsins.
 
 
 
Í 2. fjórðung héldu heimamenn áfram að valta yfir ótrúlega slappt ÍR lið. Gestirnir virkuðu alveg andlausir og það var eins og þeir hafi aldrei búist við að ná einhverju út úr þessum leik. Lái þeim hver sem vill, þetta er jú erfiðasti útivöllur í deildinni. Myron Dempsey lauk sinni þáttöku í leiknum með gullfallegri alley-oop troðslu skömmu fyrir hálfleik og staðan að fyrri hálfleik loknum var 58-38 heimamönnum í vil. Alger einstefna.
 
 
Tindastólsmenn héldu áfram þar sem frá var horfið í seinni hálfleik og völtuðu yfir gestina, að mestu á varaliðinu. Lokatölur 105-83 og ef ÍR-ingar ætla að halda sér í deildinni verða þeir að gIrða sig í brók. Tindastólsmenn litu vel út og Helgi Rafn fyrirliði sýndi frábæran leik. Dempsey var tæpur fyrir leik en spilaði þó nokkrar mínútur en fjarvera hans hafði engin teljandi áhrif á Tindastólsliðið.
 
 
Þó leikurinn hafi aldrei náð að verða spennandi þá buðu heimamenn öðru hverju upp á frábær tilþrif sem glöddu auga áhorfenda. Áður hefur troðsla Dempsey verið nefnd en senuþjófur kvöldsins var án efa Jónas Rafn Sigurjónsson sem hefur lítið náð að spila í vetur, m.a. vegna meiðsla. Hann kom sjóðheitur inn og setti 4 þrista í andlitið á ÍR-ingum í jafnmörgum skotum, þar af 3 í 2. leikhluta. Mögnuð tilþrif.
 
 
Stólarnir tryggja stöðu sína í öðru sæti deildarinnar og líta vel út fyrir lokasprettinn
 
 
 
Umfjöllun og mynd/ Hjalti Árnason
  
Fréttir
- Auglýsing -