Leikstjórnandinn Stefan Bonneau setti stigamet í Domino´s deildinni þetta tímabilið þegar kappinn sallaði niður 48 stigum í 90-100 sigri Njarðvíkinga í innansveitarkróníkunni gegn Keflavík.
48 stig í Domino´s deild karla er hæsta skorið hjá stökum leikmanni þessa vertíðina en fyrir átti Darrel Lewis leikmaður Tindastóls metið með 45 stig í viðureign Grindavíkur og Tindastóls.
Bonneau setti niður 8 af 14 teigskotum sínum, 7 af 14 þristum og 11 af 15 vítaskotum en hann var einnig með 12 fráköst, 4 stoðsendingar, 2 stolna bolta og fékk dæmdar 10 villur á andstæðingana og fyrir þetta allt saman hlaut hann 46 framlagsstig sem samt aðeins það þriðja hæsta á tímabilinu.
Hæsta framlag í leik þetta tímabilið er 50 framlagsstig en svoleiðis skrímslaframlagi hafa Willy Nelson fyrrum leikmaður Snæfells, Trey Hampton leikmaður ÍR og Alex Francis leikmaður Hauka skilað. Tracy Smith Jr. og áðurnefndur Stefan Bonneau hafa báðir áður skilað 47 framlagsstigum.
Mynd/ Davíð Eldur



