spot_img
HomeFréttirKeflavík á skriði

Keflavík á skriði

Keflavík sótti nokkuð sannfærandi sigur að Hlíðarenda í kvöld þegar liðið mætti Val í Vodafonehöllinni. Lokatölur voru 72 gegn 88 fyrir Keflavík þar sem Birna Valgarðsdóttir var atkvæðamest í liði gestanna með 22 stig. 
 
 
Í byrjun leiks gekk hvorki né rak hjá Valsliðinu á meðan Keflavíkurstúlkur léku á als oddi. Um miðjan hálfleikin þegar staðan var orðin 4 stig gegn 18 og Keflavík hafði hitt úr öllum fjórum þriggjastiga skotunum sínum tók Ágúst leikhlé. Við tók besti kafli Vals í leiknum. Góð svæðisvörn og frammistaða Telaya Mayberry breyttu stöðunni í 18 gegn 21 að loknum fyrsta leikhluta. Birna, Sara Rún og Carmen voru allt í öllu hjá Keflavík.
 
Í öðrum leikhluta tókst Keflavík betur að leysa svæðisvörn Vals og Marín Laufey kom með mikinn kraft inn í leikinn af bekknum. Þristunum hélt áfram að rigna og setti Hallveig tvo slíka í röð á gamla liðið sitt. Ragna Margrét og Kristrún voru komnar með þrjár villur. Staðan í hálfleik 39 gegn 48.
 
Valskonur tóku aftur til við maður á mann vörn og Kristrún byrjaði þriðja leikhluta með því að skora tvær þriggja stiga körfur og Valur komst yfir í fyrsta og eina skiptið í leiknum 53 gegn 52. Keflavík seig svo aftur fram úr hægt og rólega. Carmen fór að passa Taleya í vörninni og við það riðlaðist sóknarleikur Vals. Carmen fór svo meidd af velli þegar tvær mínútur voru eftir af leikhlutanum og kom ekki meira inn á. Birna endaði svo með enn einni þriggja stiga körfu á síðustu sekúndum leikhlutans og staðan var 55 gegn 66.
 
Leikmenn hófu síðasta leikhlutann af krafti þó ekki gengi vel að skora. Keflavík skipti yfir í svæðisvörn og Valskonum tókst ekki að finna svör við því. Þó Carmen nyti ekki við spiluðu Keflavíkur stúlkur mjög vel. Birna átti stórleik í vörn og sókn og Sandra Lind var mjög öflug í síðari hálfleik.
 
 
Umfjöllun og myndir/ Torfi Magnússon 
Fréttir
- Auglýsing -