Hörður Axel Vilhjálmsson og liðsfélagar í Mitteldeutscher BC eru komnir á sporið að nýju eftir tíu leikja taphrinu. MBC lagði Löwen 72-67 í gær þar sem Hörður Axel gerði 11 stig, tók 2 fráköst og gaf 2 stoðsendingar. Stigahæstur í sigurliði MBC var Djordje Pantelic með 19 stig og 5 fráköst.
MBC er í 14. sæti þýsku úrvalsdeildarinnar með 8 sigra og 12 tapleiki og það er hörku barátta gegn næstu liðum fyrir ofan í töflunni en það má ýmislegt ganga að óskum ef MBC á að komast í úrslitakeppnina þetta árið.
Karfan.is ræddi eldsnöggt við Hörð Axel um sigurinn í gær: „Þetta var augljóslega rosalega mikilvægt. Það mun létta á öllu batterýinu að vera búnir að brjóta þetta „streak.“ En eins ljúft og það var að vinna þennan þá er mikilvægt að koma sér fljótt niður á jörðina aftur og átta sig á því að þetta var bara einn sigur.“
Næsti leikur MBC er þann 15. febrúar næstkomandi á útivelli gegn Ratiopharm Ulm.



