Í kvöld lýkur sextándu umferð í Domino´s deild karla með grannaslag Hauka og Stjörnunnar í Schenkerhöllinni kl. 19:15. Fjögur stig skilja liðin að í deildinni, Haukar í 8. sæti með 14 stig og hafa tapað fimm deildarleikjum í röð en Stjarnan í 4. sæti með 18 stig og hafa tapað síðustu tveimur útileikjunum sínum.
Saga Hauka og Stjörnunnar í Hafnarfirði er ekki gömul, liðin mættust fyrst í úrvalsdeild á heimavelli Hauka árið 2001 þar sem Haukar höfðu 71-56 sigur. Níu árum síðar lágu leiðir þeirra aftur saman þegar Haukar lögðu Garðbæinga á nýjan leik, 100-85. Ári síðar nældi Stjarnan í sinn fyrsta og eina deildarsigur í Hafnarfirði til þessa, 68-89. Á síðustu leiktíð unnu Haukar svo sinn þriðja heimasigur á Stjörnunni 76-67 og hafa því 3-1 stöðu gegn Stjörnunni í viðureignum liðanna í Hafnarfirði (um er að ræða deildarleiki en félögin hafa enn ekki mæst í úrslitakeppninni).
Mynd úr safni/ Emil Barja og Haukamenn taka á móti Stjörnunni í kvöld.



