Lokaleikur 16. umferðar Dominos-deildarinnar fór fram í Schenker-höll Hauka er Stjörnumenn komu í heimsókn. Eins og allir vita er alvarleg skammdegisdeyfð að hrjá Hauka og hafa þeir ekki sigrað kappleik síðan 12. desember. Leikur Stjörnumanna hefur hins vegar verið á uppleið frekar en hitt án þess þó að liðið hafi beinlínis rakað inn stigunum, síst á útivöllum.
Gestirnir byrjuðu á hælunum í kvöld og Haukar komust í 17-10. Vörn Stjörnunnar var átakanlega vond til að byrja með og alger heppni að galopin skot Hauka vildu alls ekki ofan í körfuna. Gestirnir náðu að rétta örlítið úr kútnum undir lok fyrsta fjórðungs og máttu prísa sig sæla að vera aðeins 20-17 undir að honum loknum. Þriggja stiga skotnýting liðanna var með ólíkindum hræðileg – Stjarnan með svo mikið sem 0% nýtingu og Haukar 13%!
Gestirnir skoruðu fimm fyrstu stigin í öðrum leikhluta og voru öllum til undrunar komnir yfir 20-22. Vörn gestanna fór meira að líkjast vörn og heimamenn fengu ekki eins góð skot og áður. Þau vildu auðvitað ekkert frekar detta en hin. Jón Orri gerði vel gegn Francis og sóknarleikur Hauka snerist alltof mikið um þriggja stiga skot. Þeim var meira að segja fyrirmunað að setja sniðskot í hraðaupphlaupum en Francis klúðraði tveimur slíkum með stuttu millibili. Það er auðvitað alveg bannað. Heimamenn voru í raun ljónheppnir að vera aðeins fjórum stigum undir, 36-40 í hálfleik en Barja lauk fjórðungnum með körfu góðri og víti. Reyndar verður að taka fram að gestirnir voru síður en svo heitari fyrir utan þriggja stiga línuna með 1 af 12 ofan í á meðan Haukar höfðu slysað 2 af 16 í gegnum hringinn!
Stjörnumenn byrjuðu af krafti eftir hlé og komust 44-54 yfir fyrir miðjan leikhlutann. Atkinson var að gera vel og hann virðist vera farinn að finna til öryggis í Stjörnubúningnum. Þarna var vafalaust margur Haukamaðurinn farinn að búa sig undir enn eitt tapið og nú reyndi á karakter heimamanna. Þegar 3,33 sekúndur voru eftir af leikhlutanum heppnaðist Hauki Óskarssyni að hitta úr þriggja stiga skoti, loksins loksins, og minnkaði muninn í 56-59 og eftir á að hyggja var þetta kannski stærsta karfan í leiknum. Hún virtist blása lífi og trú í heimamenn og vörnin varð skyndilega loftþétt og dauðhreinsuð. Barja var að spila vel og kom Haukum yfir aftur 62-61 og leiddu þeir 63-61 fyrir lokaleikhlutann.
Haukar héldu áfram á sömu braut í fjórða leikhluta. Það var eins og gestirnir ættu skyndilega engan séns og þrír tapaðir boltar í röð og annar stór þristur frá Hauki kom Haukum í 70-61. Gestirnir allt í einu orðnir litlir í sér og ómögulegir. Marvin fékk svo sína fimmtu villu og allt niður á við hjá gestunum. Segja má að Stjörnumenn hafi algerlega misst hausinn því í framhaldinu fékk Atkinson sína fimmtu villu sem var tæknivilla fyrir að senda boltann of hranalega í átt að Jóni Guðmundssyni einum dómara leiksins eftir að Atkinson hafði fengið körfu góða og víti. Vægast sagt illa farið með jákvæðan hlut en hranaleg aðgerð fékk þarna hranaleg viðbrögð! Shouse bætti svo gráu ofan á svart með óíþróttamannslegri villu en góð vörn Barja fór í taugarnar á þessum annars mikla meistara. Stjörnumenn náðu sér aldrei eftir þetta og sigur heimamanna svo gott sem í höfn í stöðunni 82-67 og aðeins 4 mínútur eftir. Lauk leik með nokkuð öruggum sigri Hauka 92-77.
Það er ekki annað hægt en að hrósa Haukamönnum fyrir að sýna sterkan karakter í þessum leik. Tíu stigum undir um miðjan þriðja leikhluta, 5 tapleikir í röð og allir við alkul inn á vellinum eru ekki beint besti grunnurinn fyrir andleg afrek. En það er einmitt á þessum stundum sem menn fá tækifæri til að sýna hvað í þeim býr og góður sigur staðreynd. Francis endaði með tröllatvennu, 30 stig og 16 fráköst. Emil Barja var líkur sjálfum sér með 19 stig, 8 stoðsendingar og 7 fráköst. Haukur var svo kannski sá eini sem lauk leik með þolanlega nýtingu, setti 18 stig og tók 7 fráköst og átti sennilega mikilvægustu körfu leiksins.
Atkinson skilaði ágætu framlagi fyrir gestina með 23 stig og 15 fráköst. Aðrir voru einfaldlega langt frá sínu besta. Sveitadrengurinn ljúfi, Dagur Kár, setti 15 stig og Shouse 14. Nýtingin var átakanlega slæm fyrir utan línuna eða 8%! Það var þó einkum hausinn sem fór verst með gestina en hann var illa skrúfaður á þegar mest á reyndi, eins og einhverjir myndu orða það.
Umfjöllun: Kári Viðarsson
Haukar Óskarsson átti ágætan leik í kvöld og veitti viðtal með bros á vör og létti í hjarta:
Þetta er augljóslega mjög langþráður sigur hjá ykkur.
Já, þetta hefur verið rosalega löng fæðing hjá okkur. Allir leikirnir okkar undanfarið hafa verið svona, við lendum undir, komum til baka og svo klúðrum við því alveg. En við erum kannski farnir að læra þetta núna, það er alla vega eitthvað sem við gerðum betur núna.
Þið voruð 10 stigum undir þegar þriðji leikhluti var hálfnaður. Það hlýtur að hafa verið andlega mjög erfitt að ná að rífa sig upp úr því?
Já, við höfum verið í svona leikjum eins og ég nefndi og ég held að við séum bara komnir með æfingu í því! Ég held að við höfum náð að halda okkur aðeins rólegri núna og tókum eina sókn í einu, náðum þessu til baka og svo var bara að byggja á því. Við náðum kannski að jafna í undangengnum leikjum en duttum þá í einhverja einstaklingsvitleysu eða eitthvað svoleiðis.
Ertu sammála mér um að það vörnin hafi kannski verið stór þáttur í sigrinum – hún var mjög öflug og small saman, einkum í fjórða leikhluta.
Algerlega, mér fannst liðsvörnin mun betri en áður – þó menn hafi verið að leggja sig alla fram í undanförnum leikjum þá small hún loksins saman eins og þú segir.
Þið hittuð ekki beint vel í leiknum – ekki frekar en Stjarnan að vísu – þannig að það var kannski frekar vörnin og andlegur styrkur sem skiluðu sigrinum í hús.
Algerlega, þetta var örugglega ekki tölfræðilega fallegur leikur en við lönduðum sigri og mikill léttir!
Hrafn Kristjánsson, þjálfari Stjörnunnar, var eðlilega ekki sáttur í leikslok:
Mér hefur fundist leikur Stjörnunnar verið frekar á uppleið undanfarið heildina á litið en þó svolítið misjöfn frammistaða hjá liðinu.
Já, svona heilt yfir held ég að það sé rétt metið hjá þér. Spilamennskan hefur farið upp á við og liðsheildin hefur verið betri eftir að við breyttum til í útlendingamálunum – það er betra jafnvægi á spili liðsins. En hér í kvöld þá misstum við hlutina alveg úr höndunum í seinni hálfleik og fórum að hafa áhyggjur af kolvitlausum hlutum.
Atkinson virðist einmitt vera að koma vel inn í þetta núna hjá ykkur en honum urðu á mikil mistök er hann fékk á sig sína fimmtu villu.
Hann á að hafa grýtt boltanum eitthvert eftir að hann skoraði og fékk villu dæmda. Ég skal ekki segja, ég þarf að sjá það aftur í sjónvarpinu. Mér finnst það ótrúleg saga en ef það er rétt þá þarf ég að rífa rækilega í hnakkadrambið á honum.
Atkinson er þó kannski ekki sökudólgurinn heildina á litið. Hvaða skýringu sérðu helst á ósigrinum í kvöld?
Það er kannski helst að við þurfum að takast betur á við mótlæti. Við misstum okkur í einhverjum einstaklingsbardögum hér og þar á vellinum í staðinn fyrir að einbeita okkur að heildinni, bæði varnarlega og sóknarlega. Það kann ekki góðri lukku að stýra.



