spot_img
HomeFréttirFrank Booker: Yrði heiður að spila fyrir land mitt

Frank Booker: Yrði heiður að spila fyrir land mitt

Frank Booker nafnið þekkja líkast til flestir sem fylgdust með körfuboltanum hér undir lok síðustu aldar eða svo. Booker kom sem stormsveipur inn í úrvalsdeildina árið 1991 þegar hann lék sinn fyrsta leik gegn UMFN þann 9. janúar. Undirritaður man eftir þessum leik þar sem Booker kallinn setti upp sýningu og skoraði 52 stig og þar af 15 þrista og setti þar með met. Booker hafði svo viðkomu með liði Vals og einnig í Grindavík þar sem hann vann bikarmeistaratitil. 
 
Sonur hans Frank Aron Booker jr. er íslenskur og spilar með háskólaliði Oklahoma Sooners eins og kannski glöggir lesendur hafa tekið eftir.  Frank jr. er sonur Frank gamla Booker og Þórunnar Jónsdóttur og fæddist í Reykjavík þann 7. júlí 1994. Hann er á örðu ári sínu með Sooners og segir lífið í Oklahoma ganga vel. 
“Mér gengur bara nokkuð vel. Ég átti við bakmeiðsli að stríða sem leiddu niður í löppina á mér í upphafi leiktíðar en hef fengið bót á meinum mínum og líður vel og þetta gengur bara nokkuð vel hjá okkur.” sagði Frank Booker jr. í viðtali við Karfan.is í dag. Frank fór snemma út til föður síns og stjúpmóður og bjó í Georgíu-ríki. 
 
Frank segist reglulega heyra sögur af gamla kallinum og hans afrekum hér á landi. “Ég hef heyrt af því að hann var að setja niður alla þessa þrista þarna heima og hann hefur sagt mér sögur. Hann talar ennþá um þetta og augljóslega var þetta góður tími hjá honum.” 
 
En hvað með Ísland og íslenska landsliðið er það inni í myndinni hjá honum?
“Ég held auðvitað góðu sambandi við mömmu og systur mínar og bróðir heima á Íslandi og í mér rennur íslenskt blóð. Það yrði að sjálfsögðu heiður fyrir mig að spila fyrir íslenska landsliðið og ef á mig yrði kallað myndi því kalli vera svarað. Ég heyrði í þjálfaranum (innsk.  Craig Pedersen) síðasta sumar en komst þá ekki til æfing vegna skólans hjá mér hérna úti. En ég hef ekki heyrt í honum síðan en hefði viljað heyra í honum með sumarið og hvort einhver verkefni væru framundan. Við pabbi höfum rætt þetta saman og hann sagði að þetta yrði mjög gott fyrir mig.” sagði Frank. 
 
Aðspurður út í stórverkefni landsliðsins nk. september kom Frank Aron algerlega af fjöllum og vissi ekkert hvað undirritaður væri að tala um. 
“Þetta hljómar sem gríðarlega spennandi verkefni og að sjálfsögðu yrði ég með ef tækifærið gæfist. Varðandi skólann þá yrði ég að koma því þannig í kring að ég fengi að fara í verkefnið en ég sé ekki að þjálfarinn eða skólinn muni stoppa mig í því að spila fyrir land mitt og þjóð.  Að því sögðu yrði ég samt sem áður að virða þeirra ákvörðun hvernig sem hún yrði.”
 
Í lokin minnti undirritaður á það að ef hann myndi kjósa að spila með íslenska landsliðinu væri hann að gefa upp þann möguleika að spila með bandaríska draumaliðinu.  ”Já  ég geri mér grein fyrir því.” sagði Frank að lokum og hló. 
Fréttir
- Auglýsing -