Botnbaráttan verður bara blóðugri með hverri umferðinni en í kvöld lá Fjölnir á heimavelli gegn Stjörnunni í Domino´s deild karla og er þá átján umferðum lokið í deildinni. Fjölnir, Skallagrímur og ÍR öll jöfn á botni deildarinnar með 8 stig en Stjarnan smokraði sér upp í 3. sætið með 22 stig eins og Njarðvík en Garðbæingar hafa betur innbyrðis gegn þeim grænu. Lokatölur í Dalhúsum í kvöld voru 82-94 Stjörnunni í vil þar sem Justin Shouse reyndist gulum illur viðureignar.
Garðbæingar opnuðu þetta á fínni fléttu sem lauk með sendingu inn á endalínu þar sem Justin Shouse skoraði auðveldlega og fékk villu að auki, vítið að sjálfsögðu niður og 0-3 byrjun gestanna þetta kveldið. Davíð Ingi Bustion var einn heimamanna með rænu í fyrsta leikhluta, kunnuglegir taktar þar á ferð með þess sandblásnu elju sína að vopni. Davíð var klár en aðrir ekki þessar fyrstu tíu mínútur.
Heimamenn grýttu tuðrunni frá sér eins og þeir fengju greitt fyrir það, Garðbæingar fastir fyrir í vörninni og skot heimamanna ekki að detta. Marvin kom Stjörnunni í 10-17 með þrist en gestirnir fengu líka góð stig úr hraðaupphlaupum þökk sé góðum varnarleik og leiddu 14-25 eftir fyrsta leikhluta þar sem Davíð Ingi Bustion var með 10 af þessum 14 stigum heimamanna! Reyndar voru heimamenn með 47% nýtingu í teignum í fyrsta leikhluta, 0% í þriggja stiga og 0% í vítum á meðan tölurnar voru öllu betri úr Garðabæ eða 82% í teig, 17% í þriggja sem er nú ekki í frásögur færandi og 50% á vítalínunni sem þykir heldur ekki til tíðinda, nema þetta sé vissulega borið saman við nýtingarleysi þeirra gulu.
Annar leikhluti fór betur af stað hjá heimamönnum en Justin Shouse hélt engu að síður áfram að reynast gulum erfiður og átti magnaða spretti með 15 stig, 4 fráköst og 6 stoðsendingar í hálfleik. Danero Thomas kom inn ferskur af bekk Fjölnis sem og Hreiðar Bjarki en helsti skorari Dalhúsa, Arnþór Freyr var bara salírólegur í hálfleik með 4 stig, 0-3 í þristum.
Mitchell fór að láta taka til sín og Fjölnismönnum tókst aðeins að saxa á forystu gestanna en það sem mesta athygli vakti við annan leikhluta var að Davíð Ingi Bustion lék aðeins síðustu 20 sekúndur leikhlutans! Maðurinn hafði gert 10 af fyrstu 14 stigum Fjölni í leiknum og svo bara sendur á tréverkið næstu tíu mínútur eða svo, einhver fræði þar á bak við hjá Hjalta þjálfara Fjölnis sem eru undirrituðum hulin. Garðbæingar leiddu svo 37-45 í leikhléi með þá Marvin og Shouse í broddi fylkingar.
Davíð Ingi og Mitchell voru báðir með 10 stig í liði Fjölnis í hálfleik en Justin 15 hjá Stjörnunni og Marvin 13. Skotnýting heimamanna skánaði lítt í öðrum leikhluta, 46% í teig, 11% í þriggja og 33% í vítum en hún hafði dalað umtalsvert í teignum hjá Stjörnunni eða farin niður í 59% úr 82% í fyrsta leikhluta, 36% þriggja stiga nýting og enn 4-8 á vítalínunni eða 50% nýting sem þýðir að þeir tóku ekki eitt víti í öðrum leikhluta heldur sættu sig við skot utan af velli fremur en að sækja að körfunni.
Varnarleikur Fjölnismanna var góður á upphafsmínútum síðari hálfleiks, Róbert Sigurðsson splæsti í þrist og minnkaði muninn í 50-54 en Fjölnismenn voru aldrei mikið nærri en þetta. Allar tilraunir til að jafna í þriðja voru slökktar með mótrispu frá gestunum úr Garðabæ. Shouse var enn að refsa og var það sem bar í milli liðanna en þegar líða tók á þriðja fóru Dagur Kár og Jeremy að láta að sér kveða og sá síðarnefndi skellti niður góðum þrist og kom Stjörnunni í 57-68 og staðan svo 59-70 fyrir Stjörnuna er liðin héldu inn í fjórða og síðasta hluta.
Ef eitthvað átti úr að verða í þessum leik hjá Fjölni þurfi vörnin að smella saman í fjórða, fyrstu þrjá leikhlutana tókst þeim ekki að halda Stjörnunni undir 20 stigum í neinum leikhluta.
Í fjórða leikhluta stóðst Fjölnir ekki prófið, Stjarnan læddi 24 stigum yfir hausamót gestgjafa sinna og unnu 82-94 sigur. Vel gert hjá Garðbæingum að taka við stýrinu strax og láta stjórnina aldrei af hendi. Lítið var skorað framan af fjórða en Stjarnan seig framúr, smá vonarglæta birtist þegar Arnþór minnkaði muninn fyrir Fjölni í 68-80 með þriggja stiga körfu en viti menn, Fjölnismenn fengu körfu strax í bakið, aðeins millisekúndum eftir að þristur Arnþórs söng í netinu. Saga leiksins eiginlega, flestar góðu rispur Fjölnismanna fengu rasskell strax í næstu Stjörnusókn uns stigataflan sýndi okkur lokatölurnar 82-94.
Justin Shouse gerði 30 stig í kvöld, tók 5 fráköst, gaf 9 stoðsendingar og stal 7 boltum. Jeremy Atkinson lét vel að sér kveða í síðari hálfleik og kláraði með 26 stig og 16 fráköst. Hjá Fjölni var Jonathan Mitchell með 27 stig og 13 fráköst. Davíð Ingi Bustion lauk leik með 16 stig og 6 fráköst.
Myndir/ [email protected]
Umfjöllun/ [email protected]
Marvin Valdimarsson – Stjarnan
Arnþór Freyr Guðmundsson – Fjölnir
Justin Shouse – Stjarnan



