Svo virðist sem Mark Cuban hafi verið snöggur til að prenta út samning fyrir Amare Stoudamire sem aðeins í gær var sagður vera leystur undan risa samningi sínum við NY Knicks. Nú segja sögur vestra að Stoudamire hafi nú þegar komist að munlegu samkomulagi við Dallas Mavericks og gengið verði frá samningi þegar lögfræðingar hafa slitið naflastreng hans frá Knicks endanlega. Amare kom til NY Knicks árið 2010 og þá með Carmelo Anthony og væntingar til liðsins flugu uppúr öllu valdi.
Brotnar væntingar og gengi liðsins á þessu tímabili eru líkast til stórar ástæður þess að Stoudamire fær að fara, auk þess sem að samningur hans var hár og meiðsli hafa sett stórt strik í hans spilamennsku hjá liðinu. Þessi 32 ára gamli framherji er vissulega góð viðbót við lið Dallas og nú vilja margir meina að Dallas liðið sé að verða ansi sterkur kandídat í að vinna þann stóra enda hlaðið af kanónum. Spurning er þá bara um aldur liðsins.
Þessi vistaskipti Stoudamire líta í fyrstu út fyrir að vera byrjun á þeirri hreinsun sem Phil Jackson ætli sér með Knicks liðið. Phil sem er í stöðu “forseta” liðsins hefur samkvæmt miðlum ansi frjálsar hendur hvað varðar liðið og sem fyrr segir þá virðist hann vera búin að rífa upp ajax brúsann. Spurningin er hver er næstur í röðinni og margir fingur benda á að NYK geti eitthvað fengið fyrir Carmelo Anthony og því verði hann næstur.



