Mikil umræða hefur átt sér stað síðustu misseri og þá einkum og sér í lagi á Facebook þar sem fjöldi þjálfara hefur verið að skiptast á skoðunum um stöðu og málefni yngri flokka í íslenskum körfuknattleik. Kjartan Atli Kjartansson aðstoðarþjálfari Stjörnunnar og þjálfari yngri flokka hjá félaginu hefur jafnan tekið virkan þátt í þessum umræðum og segir í viðtali við Karfan.is að löngu sé kominn tími á að bylta því kerfi sem nú sé við lýði.
Maður hefur orðið var við mikla umræðu í körfuboltasamfélaginu um málefni yngri flokka, umræðu um hvað skuli kenna og hvenær og eins vangaveltur málsmetandi aðila um fyrirkomulag móta yngri flokka. Hvað er það svona helsta sem hefur verið til umræðu?
Heildstæðar breytingar á mótahaldi í yngri flokkum og kennsluháttum yngstu iðkendanna hafa verið til umræðu í þó nokkurn tíma. En upp á síðkastið þykir mér fleiri hafa „séð ljósið“ í þessum efnum og því hefur komið meiri breidd í umræðuna ef svo mætti orða. Það er alltaf mikilvægt að fá sem flestar hugmyndir inn í umræðuna svo hægt sé að taka réttu skrefin, því það er mikill misskilningur að einhver einn maður geti gert svona víðtækar breytingar á jafn mikilvægum þætti innan körfuknattleikshreyfingarinnar; þetta verður alltaf samstarfsverkefni.
Það helsta sem ég hef heyrt er eftirfarandi:
Að hætta með aukastigið í yngri flokkunum, stytta leiktímann og þannig gera félögum kleift að senda frá sér fleiri en eitt lið í hverjum flokki. Þannig ættu allir iðkendur að fá tækifæri til þess að keppa leiki sem eru þeim við hæfi. Börn þurfa mislangan tíma til að efla hreyfiþroska og því gætu hægari leikir hentað einhverjum betur þegar þeir eru að stíga sín fyrstu skref.
Að slaufa túrneringunum gömlu og leika í stærri mótum, þar sem allir flokkar myndu leika á sama stað um sömu helgi. Þá yrði leikið á smærri völlum og á sama tíma myndum við fækka leikmönnum inni á vellinum, allavega á yngstu stigunum.
Síðan hafa ýmsar hugmyndir verið lagðar fram. Ég hef til dæmis talað fyrir því að setja á mótsgjald í yngri flokkum svo við getum greitt dómurum. Ég hef sett reikningsdæmið upp þannig að hvert barn greiðir þúsund krónur sem yrðu settar í púkk. Ef við höldum okkur við túrneringarnar þá erum við með 50 leikmenn á hverju móti og því ættum við að ná í 50 þúsund krónur sem gætu farið upp í dómarakostnað. Ég held að allir foreldrar væru tilbúnir að borga þetta og fá um leið atvinnumenn í faginu til þess að leiðbeina börnunum, kenna þeim grunnatriðin þegar kemur að reglum og aðstoða þjálfarana við að hafa umhverfið sem uppbyggilegast.
Eins vilja einhverjir þjálfarar leggja til að boltahindranir verði bannaðar fram að einhverjum tilteknum aldri. Ég er algjörlega sammála þeirri hugmynd og legg til að sú regla verði sett á næsta þingi. Mér finnst óþolandi að sjá sum lið spila til sigurs með því að láta „besta“ leikmanninn koma af hverju boltaskríninu á fætur öðru með það að markmiði að vinna leikinn. Ég vona að með því að setja þessa reglu og fækka leikmönnum munum við ýta fleiri þjálfurum frá því að hlaupa leikkerfi í yngri flokkum.
Að lokum hefur verið nefnt að banna yngstu leikmönnunum að rífa boltann af mótherja. Við þurfum að finna eitthvað útfærsluatriði á því, til dæmis hef ég heyrt að á ákveðnum svæðum í Svíþjóð megi ekki taka boltann af andstæðingum þegar þeir eru með hann, bara hlaupa inn í sendingar.
Þetta er svona það helsta, auðvitað er meiri dýpt í umræðunni en að mínu mati byggist þetta allt á því að við eflum dómgæslu og umgjörð í yngri flokkunum. Við getum ekki alltaf verið að forgangsraða fyrir meistaraflokkana okkar og lagt peninga í þá og svo vanrækt leikmenn framtíðarinnar. Mér hefur þótt KKÍ standa sig vel að undanförnu og það hefur verið vitundavakning í körfuknattleikshreyfingunni. Nú þurfum við bara að formfesta þetta allt; setja nýjar reglur og örlítið meiri peninga í starfið í yngri flokkunum, hvernig svosem það verður gert.
Staðan í dag, erum við að horfa til annarra landa sérstaklega í sambandi við yngstu flokkanna okkar – finnst þér verið að boða breytingar og þá miklar?
Menn eru að horfa til annarra landa, tvímælalaust. Til dæmis hefur stefna kanadíska körfuknattleikssambandsins verið skoðuð af nokkrum málsmetandi aðilum. Við þurfum ekkert að finna upp hjólið í þessu. En við þurfum samt að reyna að nýta okkur aðstæður. Við erum eyland og nokkuð einangruð þegar það kemur að körfuboltanum. Segja má að við séum svolítið lokað mengi. Flest liðin spila bara við íslensk lið. Eitt og eitt félag sendir lið til keppni í Scania Cup, eða til annarra móta.
Við getum nýtt okkur það með því að setja strangar reglur um hvernig eigi að spila, setja þjálfurum skorður og breyta umhverfinu í yngri flokkunum. Við þurfum að spyrja okkur: Hvernig leikmenn viljum við ala upp, og hvernig ætlum við að ná því markmiði? Þegar svarið liggur fyrir er næsta rökrétta skref að sníða reglurnar eftir því hvert við stefnum.
Að mínu mati eru þetta ekki of miklar breytingar, allavega ekki það sem ég hef heyrt nefnt í þessari góðu umræðu sem hefur átt sér stað. Að mínu mati er löngu kominn tími á að bylta þessu kerfi sem nú er til staðar og reyna að stefna hærra. Kannski mistekst það og þá getum við – í versta falli – snúið aftur í þetta kerfi sem nú er í gangi. En þetta er tilraunarinnar virði og rúmlega það.
Hverjar hafa þínar tillögur verið sérstaklega í kringum yngri flokkana, hvað er það sem þú vilt helst sjá að taki breytingum?
Ég hef verið að þjálfa í yngri flokkunum frá árinu 2001 þegar ég stofnaði körfuknattleiksdeild Álftaness ef svo má segja, sautján ára gamall. Þá vorum við í neðstu riðlunum og vorum að reyna að stíga réttu skrefin upp á við. Síðan hef ég verið með Stjörnuna í efstu riðlunum auk þess sem ég þjálfaði aðeins í yngri flokkunum hjá FSu. Þannig að ég hef séð svona það helsta sem er í gangi á þessum fjórtán árum.
Það sem ég vil sjá breytast má setja upp í tíu punkta. Þeir eru svona:
1. Byrja með Íslandsmótið fyrr. Tíu ára eða níu ára. Við erum í samkeppni við aðrar íþróttir og þar er byrjað að keppa miklu fyrr. Boðsmótin eru ekki nógu mikil keppni fyrir níu og tíu ára börn.
2. Fækka leikmönnum og minnka vellina. Ég er mikill talsmaður minni valla. Því þá læra menn mikilvægi þess að nýta breidd og dýpt vallarins (e. Spacing). Að fækka leikmönnum er mikilvægt skref í að efla þroska leikmanna; þá helst rýmisgreind sem nýtist inni á vellinum.
3. Efla dómgæsluna. Setja á mótsgjald og borga dómurum. Þegar KKÍ dómarar hafa mætt á túrneringar hafa yfirleitt allir farið brosandi af velli. Þetta eru þeir sem eru bestir í faginu, að dæma, og við eigum að nýta þá betur.
4. Breyta umhverfinu. Við þurfum að eiga góða samræðu við foreldra og aðra sem mæta á leiki, auk þess sem við þjálfararnir þurfum að taka okkur tak. Þriðji leikur í annarri túrneringu í 8. flokki er ekki úrslitaleikur á HM. Mér finnst það ekki ásættanlegt þegar fullorðið fólk er að góla á ellefu ára leikmenn í vítaskotum eða fagna því þegar þeir gera mistök.
5. Afnema boltahindranir. Mótlæti er það besta sem ungir leikmenn fá. Þeir eiga að geta komist fram hjá manninum sínum án þess að fá boltahindrun. Pick and roll er alveg óþolandi í yngri flokkunum. Ef eitt lið notar þá fléttu þurfa hinir þjálfararnir að fara að kenna hana líka til að geta varist henni. Enginn er eyland þegar það kemur að körfuboltaþjálfun, við erum öll tengd. Þess vegna á bara að setja skýra reglu með þetta og banna þetta.
6. Afnema leikkerfi í yngri flokkum. Þegar ég segi leikkerfi er ég að tala um „set plays“. Um þetta gilda sömu röksemdir og með boltaskrínin. Ef þjálfari eyðir tíma í að kenna leikkerfi á minniboltaæfingum, sem eru oft of stuttar og of fáar, þá þarf að skoða vinnubrögð þjálfarans. Annaðhvort er hann snillingur í að kenna grunnatriðin ef hann hefur náð að kenna þau og átt tíma til að setja inn leikkerfi, eða þá að hann er að forgangsraða vitlaust.
7. Taka á „hand-checki“. Að mínu mati erum við að verðlauna lélega vörn alltof mikið. Þetta er samt allt hluti af því að fá góða dómara í yngri flokkana, en ekki sjálfboðaliða sem stundum nenna þessu varla. Við erum alltof oft að gera teknískum og flinkum leikmönnum erfitt fyrir með því að leyfa varnarmönnum að pönkast á þeim.
8. Hækka aldurinn þar sem svæðisvörn er leyfð. Við þurfum að vera betri í maður-á-mann vörn og þurfum að hætta að „beila“ okkur út með því að spila svæði gegn liðum sem geta lítið skotið. Eins þurfum við að hætta að spila svæðispressu gegn leikmönnum sem hafa ekki nógu góða sendingagetu. Bara einbeita okkur að því að hanga fyrir framan sóknarmanninn með góðri fótavinnu. Neyðin kennir naktri konu að spinna, ef við setjum þessa reglu mun fótavinna batna.
9. Breyta umgjörðinni í unglingaflokki. Það er orðið alltof erfitt að koma þessum leikjum fyrir inn í dagatalið eins og staðan er. Ég legg til að við leikum þessa leiki ört áður en tímabil meistaraflokks hefst og eftir að því lýkur. Þá væru kannski 18-20 ára strákar að spila körfubolta frá ágúst og fram í maí. Síðan væri hægt að nýta venslasamninga við lið í neðri deildunum á meðan tímabilið væri í gangi. Og já, þá þurfum við líka að breyta reglunum þar og leyfa liðum að lána fleiri leikmenn til sama liðs og þannig koma á einhverskonar „vinatengslum“ á milli liða. Slíkt samstarf gæti eflt bæði lið og gæti til að mynda hjálpað „smærra“ liðinu þegar það kemur að yngri flokka þjálfun, með samstarfi á milli félaga.
10. Við þurfum að byrja að kenna grunnreglur fyrr. Að mínu mati er ekki hægt að vera með átta ára börn á boðsmótum og ekki dæmd skref að tvígrip. Ég er búinn að kenna leikskólahópi, sex ára og sjö ára í nokkuð mörg ára samanlagt. Það er ekkert mál að kenna þessar helstu reglur ef það er gert skipulega.
Átt þú von á því að þú eða Stjarnan komið fram með eitthvað af ofangreindu sem tillögur inn á næsta körfuknattleiksþing í vor?
Ég vona að þjálfararnir geti notað grúppuna okkar á Facebook til að kasta fram þessum hugmyndum og síðan að einhver leggi þær fram. Hvort það verði ég eða einhver annar skiptir ekki máli. Ég veit líka að það er vinna í gangi hjá nefnd á vegum KKÍ og verður fróðlegt að sjá hvað kemur út úr því. En ég mæti á þingið og legg eitthvað til málanna, í hvaða formi sem það verður.
Í nóvemberlok á síðasta ári hélt KKÍ málþing um keppnisfyrirkomulag og leikreglur í yngri flokkum á Íslandi. Á málþinginu voru skipaðir umræðuhópar um hina ýmsu þætti sem snúa að yngri flokkunum og nefnd síðan skipuð til að fara með málið. Fróðlegt verður að sjá hverjar niðurstöður nefndarinnar verða en skv. upplýsingum Karfan.is er ráðgert að nefndin skili af tillögum fyrir körfuknattleiksþingið 2015.
Mynd/ sunnlenska.is – Kjartan Atli Kjartansson var á tíma spilandi þjálfari hjá FSu á Selfossi.



