spot_img
HomeFréttirÖrvar: 2009 er KR enn í fersku minni

Örvar: 2009 er KR enn í fersku minni

Örvar Þór Kristjánsson körfuboltaþjálfari er fyrsti spekingur á svið en hann rýnir hér í bikarhelgina sem er framundan í Laugardalshöll. Örvar hallast að sigri KR og Keflavíkur í Laugardalshöll að þessu sinni. 
 
Bikarúrslitaleikur kvenna
Grindavík – Keflavík: laugardagur 21. febrúar kl. 13:30.
 
 
Ég verð að viðurkenna að ég hef lítið getað fylgst með kvennaboltanum í vetur en þó eitthvað. Hinsvegar veit ég að þessi tvö lið eru afar sterk og líkleg til afreka. Þó svo Grindavík hafi verið seinar á flug í vetur þá hafa þær mannskapinn til þess að gera góða hluti og spilað vel þegar líða tók á mótið. Innan liðsins eru margir góðir og reyndir leikmenn enda miklu verið tjaldað til í kvennaboltanum í Grindavík. Verður forvitnilegt að sjá hvað leikmenn eins og Pálína, María Ben og Petrúnella gera í þessum leik, algjörir lykilmenn og ef þær hitta allar á góðan leik verður þetta erfitt fyrir Keflavík. Keflavíkurliðið er gríðarlega sterkt en vissulega er það mikil blóðtaka fyrir liðið að spila án Carmen Tyson-Thomas sem hefur verið einn allra besti leikmaður deildarinnar. Það eru samt fullt af leikmönnum í Keflavíkurliðinu sem geta spilað og ætla ég að spá Keflavík sigri í þessum leik. Eitthvað segir mér að fjarvera Carmen Tyson –Thomas eigi eftir að þjappa Keflavíkurliðinu enn frekar saman og vinkona mín hún Sara Rún Hinriksdóttir stígur hressilega upp. Keflavík sigrar með 3 stigum eftir mikinn spennuleik.
 
Bikarúrslitaleikur karla
Stjarnan – KR: laugardagur 21. febrúar kl. 16:00
 
Þetta eru tvö frábær lið og þessi félög hafa marga skemmtilega hildina háð á síðustu árum. KR-ingar eru með það ferskt í minninu þegar Stjarnan “stal” af þeim bikarnum í einhverjum mesta “upset” úrslitaleik allra tíma árið 2009. Þá var það ekki einn einasti maður sem hafði trú á sigri Stjörnunnar utan leikmanna og þjálfarateymis félagsins og þeim svíður ennþá í vesturbænum vegna þessa. KR-ingar fá nú afar kærkomið tækifæri til þess að kvitta fyrir sig. Þó svo að KR-ingar hafi verið í algjörum sérflokki í vetur þá er ekki sama bil á milli þessara liða og árið 2009, vissulega er KR liðið betur mannað og klárlega sigurstranglegri aðilinn en lið Stjörnunnar er einnig afar sterkt. Ég á von á hörkuleik og fróðlegt verður að sjá til leikmanns eins og Justins Shouse sem hefur verið sterkur að undanförnu. Þá hefur nýr bandaríkjamaður Stjörnunnar verið að spila betur og betur en verður að passa að lenda ekki í villuvandræðum. KR hafa mikla breidd og mörg sterk vopn á hendi en ef þeir Michael Craion og Pavel Ermolinski verða í “beast” mode þá á ekkert lið (hér á landi) snúning í þetta KR-lið. Darri er svo einnig þessi x-faktor sem alltaf skilar sínu. Leikurinn verður spennandi og skemmtilegur en að lokum verða þetta KR-ingar sem sigla framúr og sigra með 5 stiga mun.
Verð illa svikinn ef þessi RISA félög fylli ekki höllina!
 
 
Fréttir
- Auglýsing -