KR er bikarmeistari í 10. flokki karla eftir 53-64 sigur á Haukum í Laugardalshöll. KR tók snemma við stýrinu og hélt um taumana allt til leiksloka. Sigvaldi Eggertsson var síðan útnefndur Lykilmaður leiksins en hann gerði 18 stig, tók 8 fráköst, gaf 2 stoðsendingar og varði 2 skot í leiknum.
Byrjunarliðin:
KR: Sigvaldi Eggertsson, Andrés Ísak Hlynsson, Breki Brimar Ólafsson, Birkir Þór Björnsson og Orri Steinn Árnason.
Haukar: Hilmar Smári Henningsson, Aron Ás Kjartansson, Ísak Sigurðarson, Hilmar Pétursson og Hjalti Freyr Ómarsson.
Hafnfirðingar voru sprækari í morgunsárið á upphafsmínútum leiksins en KR-ingar hrukku í gang með Sigvalda Eggertsson í broddi fylkingar sem gerði 8 fyrstu stig KR í leiknum. Haukar völdu 2-3 svæðisvörn enda fyrirséð að þeir yrðu í vandræðum með Sigvalda. KR leiddi 7-14 að loknum fyrsta leikhluta þar sem Haukaskotin voru í kaldara lagi.
Áfram vildi boltinn ekki niður hjá Haukum og KR seig ennfrekar framúr í öðrum leikhluta. Orri Steinn setti góðan þrist yfir svæðisvörn Hauka og kom KR í 10-19 og Vesturbæingar almennt að leysa vel úr vörn Haukamanna. Í hálfleik voru Haukar 10-0 í þristum og 6-18 í teignum, fjarri því ákjósanleg nýting.
KR leiddi 15-26 í hálfleik þar sem Sigvaldi Eggertsson var með 13 stig og 8 fráköst en Hjalti Freyr Ómarsson var með 4 stig og 4 fráköst í liði Hauka.
Lokið var loks tekið af körfunni fyrir Hauka og fyrsti þristur þeirra í leiknum fæddist snemma í síðari hálfleik og Haukar minnkuðu muninn í 20-29. Sigvaldi Eggertsson fékk sína fjórðu villu í liði KR í þriðja leikhluta og hélt á tréverkið og þar með var nokkuð bit úr sóknarleik KR en varnarleikur þeirra hélt vel og undir lok þriðja hluta var sem Haukar fengju greitt fyrir að henda frá sér boltanum og fyrir vikið var forystu KR lítt ógnað og staðan 30-43 KR í vil fyrir fjórða og síðasta leikhluta. Haukar héngu inni þökk sé veglegu framlagi hjá Hilmari Péturssyni í leikhlutanum.
Stemmningin var svo Hafnfirðinga í upphafi fjórða leikhluta, 6-0 rispa hjá rauðum en þá var komið að því að Sigvaldi, á fjórum villum, mætti aftur til leiks. Með innkomu hans í lið KR fór munurinn úr 39-44 í 39-52 á örskömmum tíma og sú litla von sem Haukar höfðu unnið sér inn var slökkt!
Hilmar Pétursson var allt í öllu hjá Haukum í síðari hálfleik en hann lauk leik með 23 stig, 15 fráköst og 5 stoðsendingar en hjá KR dreifðist álagið betur og þeir Sigvaldi og Andrés Ísak Hlynsson leiddu KR-inga til 53-64 sigurs. Sigvaldi eins og áður greinir með 18 stig, 8 fráköst, 2 stoðsendingar og 2 varin skot en Andrés Ísak með 15 stig, 9 fráköst og 4 stoðsendingar.
SIgvaldi Eggertsson – Lykilmaður leiksins



