Njarðvíkingar eru bikarmeistarar í unglingaflokki karla eftir jafnan spennuslag gegn FSu. Njarðvíkingar sigu framúr í fjórða leikhluta þar sem Maciej Baginski reyndist oft þrautgóður á raunastund og var fyrir vikið valinn Lykilmaður leiksins. Lokatölur 92-84 þar sem Maciej var með 16 stig, 11 fráköst og 6 stoðsendingar í liði Njarðvíkinga. Um var að ræða flottan leik tveggja öflugra liða sem bróðurpart leiksins skiptust á forystunni.
Jón Arnór Sverrisson kom Njarðvíkingum í 9-2 með þriggja stiga körfu og þá tók Erik Olson leikhlé fyrir sína menn í FSu sem virtust vart lentir í Laugardalshöll. Selfyssingar tóku snöggt við sér með Erlend Ágúst í broddi fylkingar og jöfnuðu metin 11-11. Magnús Már Traustason var að gera FSu skráveifu í byrjun leiks og skoraði 8 af fyrstu 11 stigum Njarðvíkinga, vel mataður af Ragnari Helga Friðrikssyni. Svavar Ingi kom beittur inn í liði FSu og Iðumenn nýttu hæð sína vel en voru þó undir 23-22 eftir fyrsta leikhluta sem Ragnar Helgi lokaði með þriggja stiga körfu.
Í öðrum leikhluta bráði af Magnúsi og Ragnar Helgi byrjaði á tréverkinu og Njarðvíkingum gekk lítt þessar fyrstu mínútur í öðrum hluta. Maciej Klimaszewski átti sterkar rispur fyrir FSu og þegar hann var að kulna tók Geir Elías Úlfur Helgason við með tvo sterka þrista í röð og kom FSu í 31-37. FSu leiddi 38-44 í hálfleik þar sem Magnús Már var með 10 stig og 5 fráköst í liði Njarðvíkinga en hjá FSu voru þeir Erlendiur og Birkir báðir með 8 stig.
Jón Arnór kom beittur inn í síðari hálfleikinn og jafnaði leikinn 49-49 en hnífjafnt var á öllum tölum og skiptust liðin á forystunni stöku sinnum. Njarðvíkurvörnin var FSu afar erfið framan af þriðja leikhluta og í fyrsta sinn tókst grænum að halda Selfyssingum undir 20 stigum einn leikhluta. FSu var minna þennan leikhluta að koma boltanum í námunda við stóru strákana í teignum og voru því ekki jafn ógnandi og fyrr í leiknum.
Adam Eiður Ásgeirsson hóf sig svo til flugs í lok þriðja leikhluta og átti sterkar rispur og setti m.a. tvö síðustu stig leikhlutans af vítalínunni og Njarðvíkingar leiddu 64-63 fyrir lokasprettinn. Stigadreifingin fín í báðum liðum þar sem alls átta leikmenn í liðunum voru komnir með 10 stig eða meira í þremur leikhlutum.
Í upphafi fjórða leikhluta slitu Njarðvíkingar sig frá, komust í 72-63 en Selfyssingar létu ekki stinga sig af og minnkuðu muninn í 72-69. Jón Arnór Sverrisson setti stóran þrist þegar hann kom Njarðvík í 80-76 og svona tókst Njarðvíkingum alltaf á seiglunni að vera feti framar og síga framúr FSu á lokasprettinum. Bæði lið fengu vegleg framlög og fimm leikmenn Njarðvíkinga gerðu 13 stig eða meira í leiknum. Lokatölur reyndust svo 92-84 eins og áður greinir í stórskemmtilegum leik.
Maciej Baginski – Lykilmaður-leiksins



