Hildur Björg Kjartansdóttir og UTPA Broncs sigruðu enn einn leikinn um helgina og að þessu sinni gegn Utah Valley með sniðskoti frá Cherrell Price rétt áður en lokaflautan gall. Naumur en mikilvægur sigur 55-57. Hildur skoraði 4 stig og tók 7 fráköst á 17 mínútum. Broncs stefna nú hraðbyr í 2. eða 3. sætið fyrir lokakeppnina í WAC riðlinum í vor.
Gunnar Ólafsson og St. Francis Terriers sigruðu sinn 8 leik í röð, nú gegn Saint Francis Univeristy 66-54. Gunnar spilaði þó lítið í leiknum. Terriers tryggðu sér með þessum sigri toppsætið í lokakeppni NEC riðilsins í vor.
Margrét Rósa Hálfdánardóttir skoraði 9 stig í sigri Canisius á Monmouth um helgina. Margrétt bætti við 2 fráköstum og 1 stolnum bolta.
Furman Paladins töpuðu illa fyrir North Carolina háskólanum í Greensboro, 49-84. Kristófer Acox skoraði 7 stig og tók 10 fráköst. Paladins réðu ekkert við þriggja stiga skothríð Spartverjanna frá Greensboro, en þeir skutu 15/25 fyrir utan þriggja stiga línuna í leiknum.
LIU Brooklyn tapaði stórt fyrir Wagner háskólanum um helgina, 60-47 en það gekk ekkert upp í sóknarleik Svartþrastanna í leiknum. Þeir skutu 12/54 í leiknum og töpuðu boltanum 16 sinnum. Elvar skoraði 6 stig og Martin 4 en enginn í liði LIU náði 10 stigum.



