Íslendingarimma fór fram í sænsku úrvalsdeildinni í kvöld þegar Solna Vikings heimsóttu Sundsvall Dragons í drekabælið. Heilum átján stigum munaði á liðunum fyrir leik kvöldsins og flestir veðbankar eflaust sett pening sinn á Sundsvall þetta sinnið en varð ekki kápan úr því klæðinu.
Solna gerði góða för norður í land og lagði Sundsvall 80-89. Sigurður Gunnar Þorsteinsson gerði 7 stig, tók 5 fráköst, gaf 2 stoðsendingar og stal einum bolta í liði Solna. Hlynur Bæringsson var atkvæðamestur íslensku leikmannanna í liði Sundsvall með 14 stig, 16 fráköst, 3 stoðsendingar, 2 stolna bolta og 4 varin skot. Jakob Örn Sigurðarson bætti við 10 stigum, tók 3 fráköst og gaf 2 stoðsendingar. Þá var Ægir Þór Steinarsson með 2 stig og 3 stoðsendingar og Ragnar Nathanaelsson lék í tæpar fjórar mínútur en skoraði ekki.
Þrátt fyrir sigur Solna í kvöld er enn himinn og haf á milli liðanna í deildinni. Sundsvall í 4. sæti með 40 stig en Solna í 7. sæti með 24 stig.



