Valskonur innsigluðu tvö stig á 20 mínútum í DHL-Höllinni í kvöld þegar Reykjavíkurrimma liðsins gegn KR fór fram í Domino´s deild kvenna. Lokatölur í Vesturbænum minntu einna helst á hálfleikstölur en Valur hafði þá 46-60 sigur á stöllum sínum í KR. Röndóttar bitu frá sér í síðari hálfleik en flatneskja þeirra í fyrri hálfleiknum reyndist KR um megn og Valur skoppaði sér upp í 3. sæti með 26 stig eins og Grindavík sem á leik til góða.
Kristrún Sigurjónsdóttir var til allrar lukku fyrir Valskonur ekki jafn lengi frá og óttast var í fyrstu og mætti galvösk inn í byrjunarlið Vals í kvöld. Hlíðarendakonur voru mun ákveðnari í fyrsta leikhluta, settu góða pressu á bakverði KR og uppskáru 7-20 stöðu að loknum fyrsta leikhluta þar sem þær Taleya og Ragnheiður Benónýsdóttir voru drjúgar.
Heimakonum í DHL-Höllinni gekk ekkert að skora, fyrstu tíu þristarnir vildu ekki niður og sá fyrsti datt ekki fyrr en í fimmtándu tiltraun og þá minnkaði KR muninn í 14-36. Vandamálið var að KR var ekki að finna glufur á vörn Vals og sættu sig við langskotin þrátt fyrir fimbulkuldann í þeim efnum. Valskonur með Taleya í broddi fylkingar leiddu því 19-42 í hálfleik.
Varnarleikur KR var allt annar í síðari hálfleik en geta liðsins til að skora hafði lítt tekið við sér og þó KR hefði 11-6 sigur í þriðja hluta bar enn nokkuð í milli. 9-3 sprettur í upphafi fjórða leikhluta gerði þetta að 12 stiga leik með sex mínútur eftir á töflunni. Þessar sex mínútur dugðu þó ekki, Valskonur héldu sjó en þær hefðu ugglaust lent í meira basli ef leikmenn eins og Simone Holmes í liði KR hefðu framkvæmt sína hluti með einhverju öðru en hangandi hendi. Aðeins fimm leikmenn KR komust á blað en átta í liði Vals og munaði um minna í framlaginu.
Eftir kvöldið er endanlega hægt að slá því föstu að KR mun ekki ná inn í úrslitakeppnina og hið sama er hægt að segja um Breiðablik og Hamar. Aðeins fjögur lið komast inn í úrslitakeppnina og nú er ljóst að bara Snæfell, Keflavík, Valur, Grindavík og Haukar eru í þeim potti.



