spot_img
HomeFréttirLarry Sanders, kvíðinn og þunglyndið

Larry Sanders, kvíðinn og þunglyndið

NBA deildin getur mun seint teljast athvarf fyrir fólk með geðheilsuvandamál. Hún er harður húsbóndi og oft vægðarlaus í samskiptum sínum við leikmenn sína. Það er einfaldlega ekkert pláss fyrir persónuleg vandamál í atvinnuíþróttum í dag.
 
Dennis Rodman rankaði við sér með hlaupið á haglabyssu í kjaftinum fyrir utan höllina í Auburn Hills í Detroit snemma á 10. áratugnum. Þrátt fyrir alla velgengnina með Detroit undanfarin ár og íþróttahæfileika hans, þá var hann ekki með geðheilsu í verkefnið. Rodman fann ekki “ró” fyrr en í zen-umhverfi Phil Jackson í Chicago.
 
Það er allt morandi í geðrænum vandamálum í NBA deildinni, og hefur verið til langs tíma. Andrei Kirilenko grét eitt sinn á bekknum hjá Utah Jazz. Goðsögnin og lógóið í NBA deildinni, Jerry West hefur barist við þunglyndi alla sína ævi. Geitin sjálf, Michael Jordan er og hefur alltaf verið spilafíkill. Hver man ekki eftir Stephon Marbury og vaselíninu? Michael Beasley? Royce White og flughræðslan?
 
Það er þó ljós við endann á göngunum. Fleiri og fleiri leikmenn eru að koma fram í dagsljósið með geðræn vandamál sín. Greg Stiemsma, leikmaður Toronto Raptors hefur rætt opinskátt um þunglyndi sitt, sem hefur hrjáð hann allan hans feril.
 
Nú síðast hefur Larry Sanders, miðherji Milwaukee Bucks afsalað sér $44 milljóna samningi sínum við liðið og ákveðið að ná tökum á geðheilsu sinni. Sanders hefur verið agavandamál frá nánast fyrsta degi, en hann hefur fallið þrisvar á lyfjaprófi vegna eiturlyfja. Hann fer ekki leynt með notkun sína á kannabisefnum en hann segir þau bestu verkjalyf sem til eru. Nú ætla ég ekki að geta mér til um orsakasamhengið milli kannabisneyslu hans og dvínandi geðheilsu, en rannsóknir undanfarið hafa bent á að samhengi sé almennt þar á milli – hvort sem á undan kemur, hænan eða eggið?
 
Sanders hvarf skyndilega í vetur og formlega skýringin frá Bucks var “persónuleg mál” en raunin er sú að hann innritaði sig á spítala til meðferðar við kvíða, þunglyndi og geðhvörfum. Þetta ræðir hann opinskátt í viðtali við The Players Tribune. Sanders lýsir breytingunni sem verður á lífi manns sem fer í NBA deildina, pressan vex og einkalífið fer út um gluggann.
 
Ég tek ofan fyrir Larry Sanders að ekki bara taka stjórn á eigin vandamálum heldur einnig skýra frá þeim og ákvörðun sinni fyrir okkur hinum á svo þroskaðan hátt sem raun ber vitni. Viðtalið er í heild sinni hér að neðan og einnig vil ég benda fólki á frábæra grein Kevin Arnovitz hjá ESPN um drenginn og geðheilsu almennt í NBA deildinni.
 
Fréttir
- Auglýsing -