Árgangamót ÍR í körfubolta fór fram í gær 28. febrúar í Íþróttahúsi Seljaskóla eða Hertz Hellinum eins og hann er jafnan kallaður. Árgangar allt frá 1972 til 1994 tóku þátt í mótinu.
Það vantaði ekki ÍR goðsagnirnar á vellinum í Hellinum. Gísli “Kokkurinn” Hallsson, Eggert Maríuson, Hjörleifur Sigurþórsson, Eiríkur “Eazy” Önundarson, Guðni “Big G” Einarsson, Ásgeir Hlöðversson, Ásgeir “Hundurinn” Bachman og Elvar “Formaður” Guðmundsson svo einhverjir séu nefndir. Hjalti Friðriksson, nýkominn frá Asíu og 16 kg léttari eftir indverskt fæði, mætti á svæðið. Ghetto Hooligans, stuðningslið ÍR voru að sjálfsögðu með lið og fóru á kostum að venju.
Sveinbjörn Claessen, leikmaður Dominosdeildarliðs ÍR var andlegur leiðtogi og stjórnaði mótinu með miklum aga auk þess að stýra árgangi 1986.
Árgangur 1979, með Steinar Arason í broddi fylkingar, fór með sigur af hólmi í úrslitaleik gegn árgangi 1993, 16-8 en hver og einn leikur var spilaður 1 x 10 mín.
Undirritaður og árgangur hans 1974 þurfti að hætta keppni þrátt fyrir 3 sigra og 1 tap, en meiðsli og aðrar skyldur hömluðu frekari þátttöku liðsins.
Fleiri myndir er að sjá á Facebook síðu ÍR.
Mynd: Sigurlið árgangs 1979. (ÍR-Karfa)



