Bikarmeistarar Stjörnunnar fengu Deildarmeistara KR-inga í heimsókn í kvöld. KR-ingar höfðu ærna ástæðu til að mæta grimmir til leiks og vildu vafalaust sýna bikarþjófunum í tvo heimana. Stjörnumenn eru hluti af miklum hrærigraut í töflunni og eru staðsettir í fjórða sætinu af ástæðum sem bara tölfræðinördar skilja. Bæði lið voru því líkleg til að leggja mikið í leik kvöldsins. Nefna má að þessi leikur var fyrsti heimaleikur Stjörnunnar eftir bikarsigurinn frábæra en húsið var álíka tómt og vanalega. Það er algerlega til skammar!
Gestirnir byrjuðu 0-5 en liðin skiptust svo á að taka stutta spretti. Dagur Kár var sjóðandi heitur og Craion var mjög áberandi vandamál hinum megin fyrir heimamenn. Ekki litu KR-ingar út fyrir að erfa bikartapið svo mikið við Stjörnumenn, a.m.k. ekki varnarlega, og fengu að endingu 25 stig á stig í fyrsta leikhluta. Að vísu var heimavörnin ekki mikið betri, staðan 25-21 eftir fyrsta fjórðung.
Bæði lið eyddu, sennilega varnarorkunni, í dómarana í kvöld og mætti halda að liðin væru að berjast við að sætta sig við fall en ekki deildar- og bikarmeistaratitil. Samt sem áður ágætur leikur áhorfs þar sem mikið var skorað og Dagur var enn heitur fyrir heimamenn. Þeir héldu nokkurra stiga forystu mestallan fjórðunginn og Dagur kórónaði frábæran fyrri hálfleik með flautuþristi. Heimamenn 55-50 yfir í hálfleik. Dagur var 6/7 í þristum og með 23 stig – Craion kominn með 15 stig fyrir KR.
Heimamenn héldu forystunni framan af þriðja leikhluta en um miðbik hans í stöðunni 66-60 fór allt í baklás. Dagur missti aðeins einbeitinguna og fékk á sig ásetningsvillu og settist á bekkinn með fjórar villur. KR-ingar jöfnuðu leikinn nánast á augnabliki og stemmningin skyndilega þeirra. Shouse hélt hausnum á á sínum mönnum með ítrekuðum liðsfundum um allan völl og leikurinn hélst í járnum, staðan 77-78 að loknum fjórðungnum. Craion fyrrnefndur spilaði eins og vel stilltur berserkur og skoraði 16 stig í leikhlutanum!
KR-ingar virtust ætla að prófa að spila svolitla vörn í byrjun fjórða leikhluta og eftir stolna bolta og nokkur stopp var staðan orðinn 77-87 fyrir gestina. Dagur Kár kom þá aftur inná, enda búinn að vera bestur sinna manna fram til þessa. Craion lét það ekki aftra sér frá því að skora enn eina körfuna og kom KR í 82-93 þegar rúmar 5 mínútur voru eftir. Heimamenn sýndu þá að þeir kunna líka að spila vörn og Jeremy fór mikinn, stal boltum og skoraði grimmt. Staðan allt í einu 92-93 og enn 3 mínútur eftir. Helgi setti þá þrist en Marvin svaraði að bragði. Shouse fékk svo tækifæri til að koma Stjörnumönnum yfir þegar um 30 sekúndur voru eftir en í staðinn setti Brilli ,,clutch“ nett gegnumbrot og kom gestunum í 97-100. Dagur Kár hafði hins vegar geymt eina hitahleðslu síðan í fyrri hálfleik og setti spjald-þrist 6 sekúndum fyrir leikslok! Darri Hilmars lét þessar 6 sekúndur alveg duga og fékk óþarflega gott þriggja stiga skot í blálokin sem fór auðvitað ofaní. Darri ætti í raun að vera snarörvhentur enda hefur hann ekki klikkað á skoti síðan um fermingu, alveg eins og Derek Fisher! Shouse var reyndar hársbreidd frá því að jafna á þeim litla tíma sem var þá eftir, en KR marði sigur 100-103. Spennandi og hressandi lokamínútur!
Þó svo að Craion hafi verið langatkvæðamestur gestanna með 37 stig og 20 fráköst sást í kvöld hvað KR-liðið er öflugt. Án Pavels setja samt þrír leikmenn gríðarlega stórar körfur, þ.e. Brilli, Helgi og Darri. Helgi setti alls 18 stig og Brilli 15. Með Craion, sem er eins og svindl-leikmaður í tölvuleik, geta KR-ingar sleppt því að spila vörn og gefið leikstjórnanda sínum færi á að hvíla fyrir úrslitakeppnina. Ósanngjarnt!
Jeremy hefur farið vaxandi hjá Stjörnunni og var í raun ekki svo langt frá Craion með 32 stig og 15 fráköst. Dagur átti flottan leik með 28 stig og það var agalegt fyrir Stjörnuna að missa hann útaf með 4 villur. Jón Orri var ekki með í kvöld en hann hefði kannski náð að hemja berserkinn að einhverju leyti. Minna má á að Jón Sverris og Litli-Marv voru ekki með frekar en fyrri daginn en þar eru nú einhverjir tugir metra frá vegna meiðsla.
Umfjöllun: Kári Viðarsson



