Í kvöld tók Þór á móti Val í 1. deild karla í körfubolta og var þetta fyrri leikur liðanna en liðin mætast öðru sinni á morgun, laugardag. www.thorsport.is greinir frá. Valsmenn opnuðu leikinn á fyrstu mínútu með þriggja stiga körfu og liðið leiddi leikinn það sem eftir lifði. Um miðjan fjórðungin í stöðunni 7-8 bættu gestirnir í og leiddu með sex stigum þegar fyrsta leikhluta lauk 14-20.
Þór byrjaði annan leikhlutann ágætlega og minnkuðu muninn í fjögur stig en þá gáfu gestirnir aftur í og juku forskotið í níu stig um miðjan leikhlutann. Góður kafli Þórs fylgdi í kjölfarið og þegar tvær mínútur lifðu af fjórðungnum höfðu þeir minnkað muninn í fjögur stig. En þessi góði kafli varði of stutt og Valsmenn spíttu í lófana og þegar öðrum leikhluta leik munaði tíu stigum á liðunum 34-44.
Þessar sveiflur sem voru í leik liðanna í fyrri hálfleik hélt áfram það sem eftir lifði. Valsmenn hófu þriðja leikhlutann af miklum krafti og eftir tveggja mínútna leik höfðu þeir náð tólf stiga forskoti 34-46. Þá fór í hönd ágætur kafli Þórs sem varði allt of allt of stutt því þegar þeir höfðu komið muninum niður í sex stig um miðjan leikhlutann, gáfu gestirnir í. Þegar fjórði og síðasti leikhlutinn hófst munaði tíu stigum á liðunum 49-59.
Þessi munur hélst það sem eftir lifði leiks. Mikil barátta beggja liða og var sérlega gaman að fylgjast með sterkri innkomu hins unga Sturlu Elvarssonar sem svo sannarlega lét til sín taka. Valsmenn héldu út og lönduðu ellefu stiga sigri 66-77.
Frisco Sandidge var stigahæstur Þórs í kvöld með 21 stig og þá tók hann 12 fráköst og var með 6 stoðsendingar. Arnór Jónsson kom næstur með 20 stig og setti hann m.a. niður sex þriggja stiga skot í níu tilraunum. Tryggvi Snær Hlinason átti mjög flottan leik í kvöld og var með 11 stig og 8 fráköst auk þess að hann var drjúgur við að verja skot andstæðinganna. Vic Ian Damasin og Sturla Elvarsson 4 hvor, Einar Ómar Eyjólfsson 3 stig og 16 fráköst, Daníel Andri Halldórsson 2 og Jón Ágúst Eyjólfsson 1.
Hjá Val var Nathen Garth skoraði 25 stig og tók 9 fráköst , Kristján Leifur Sverrisson var með 13 stig, Leifur Steinn Árnason og Sigurður Rúnar Sigurðsson 10 hvor.
Liðin mætast svo öðru sinni á morgun laugardag og hefst leikur liðanna klukkan 16:30.
Umfjöllun og myndir/ Páll Jóhannesson



