Reggie Miller sagði nýverið í viðtali við Jimmy Kimmel, að þegar hann var nýliði í NBA deildinni spilaði hann í upphafi leiktíðar sýningarleik með Indiana Pacers gegn Chicago Bulls. Þar mætti hann í fyrsta skiptið Michael Jordan sem var þá á fjórða ári í deildinni.
Miller, sem er annálaður kjaftaskur og ruslaræðumaður, hóf feril sinn sem slíkur hjá UCLA háskólanum og kom kjaftandi inn í NBA deildina árið 1987.
Í fyrrnefndum sýningarleik, sem engin stjarna nennti að spila, var Miller kominn með (að hans sögn) 10 stig í hálfleik og Jordan með 4. Þeir voru ófáir ruslaræðumennirnir í Indiana Pacers og einn þeirra var Chuck “The Riffle Man” Person, en hann reifst iðulega við Larry Bird í hvert skiptið sem þeir mættust á vellinum.
Chuck þessi æsti Miller upp í það að láta nú þennan Michael Jordan, sem átti að geta gengið á vatni, heyra það. Miller fannst það prýðisgóð hugmynd. Sagði honum að Reggie Miller væri kominn í deildina og Jordan gæti nú bara farið að pakka, kominn með einhver 4 aum stig á móti heilum 10 frá nýliðanum.
Allt í einu fékk Jordan tilgang til að spila leikinn. Nýliði frá Kaliforníu að rífa sig við sjálfan Michael Jordan?!
Skipti engum togum að hann setti 40 stig í viðbót í grímuna á Miller sem sjálfur gekk af gólfinu með 12.
Að leik loknum sagði Michael Jordan þessa stórkostlegu og hér eftir ódauðlegu línu (ef minni Reggie Miller er rétt):
“Be sure you never talk to Black Jesus like that.”
Hinn Svarti Jesús, gott fólk. Árið 1987, eftir heil þrjú ár í NBA deildinni og ekki búinn að vinna neinn titil, var Michael Jordan að kalla sig “Black Jesus”.
Það gildir einu hvort sagan sé sönn eða 100% rétt, hún er svo stórkostleg að hana þarf að skrá í mannkynssögubækurnar. Rétt eins og allar sögur af samskiptum stórkostlegra leikmanna inni á körfuboltavellinum.
Í kvikmynd Spike Lee (sem er annar gamall “vinur” Reggie Millers) um Malcolm X er atriði þar sem Malcolm X skólar kennara einn og guðsmann um litarhaft Jesú. Þar bendir hann á þá mannfræðilegu staðreynd að Jesú hefði aldrei getað verið “bleiknefji” eins og hann orðar það, vegna þess landsvæðis sem sögur Nýja testamentisins gerast á.
En hvort sem Malcolm X spáði fyrir því eða ekki þá var The Black Jesus til og hann spilaði körfubolta með Chicago Bulls á níunda og tíunda áratugnum!
Reggie Miller var hins vegar frábær körfuboltaspilari þó hann sé óþolandi með mikrófóninn við lýsingar á leikjum. Miller er einn af þessum óheppnu, en jafnframt frábæru leikmönnum sem voru upp á sitt besta þegar The Black Jesus drottnaði yfir NBA deildinni. Þeir elduðu lengi vel grátt silfur saman þó Jordan hafi oftast haft yfirhöndina. The Black Jesus og Miller mættust í 49 deildarleikjum á ferlinum og hér er tölfræði þeirra í þeim:
Fyrir þá sem ekki hafa séð hana, mæli ég heilshugar með Winning Time myndinni um Reggie Miller. Hún fer ítarlega yfir það hvernig Miller smaug undir skinnið á andstæðingum sínum og tók bólfestu í hausnum á þeim. Spike Lee veit allt um það.
Hvílum aðeins “The G.O.A.T.” því viðurnefnið “The Black Jesus” er komið til að vera.



