spot_img
HomeFréttirHáspenna í Síkinu!

Háspenna í Síkinu!

 
Leikur Tindastóls og Hauka í Síkinu á Króknum tafðist um klukkutíma þar sem dómurum seinkaði við Holtavörðuheiðina. Haukarnir höfðu komið fyrr og voru aldeilis tilbúnir í þá baráttu sem framundan var.
 
 
 
Kári Jónsson gaf tóninn fyrir Haukana í upphafi leiks og þeir leiddu framan af. Skotin voru ekki að detta hjá heimamönnum en með mikilli baráttu náðu þeir að jafna og staðan var 15-15 að loknum fyrsta fjórðung. Ekki hátt skor en mikið barist og mikið fjör. Heimamenn voru ekki að finna réttu skotin vegna góðs varnarleiks Hauka og það sést kannski vel á því að Helgi Rafn reyndi þrjá þrista í fjórðungnum og það er ekki algeng sjón hjá tröllinu. Hann hitti reyndar úr þeim fyrsta og er því fyrirgefið að reyna aftur.
 
 
Í öðrum leikhluta hélt baráttan áfram og heimamenn byrjuðu sterkt, voru fljótlega komnir í 22-15. Þá tóku Haukar rispu og minnkuðu muninn í 2 stig 22-20. En þá var komið að gömlu Stólunum, Helgi Freyr með 2 þrista og Svavar Atli með einn settu muninn í 10 stig 33-23 og allt að verða vitlaust í Síkinu. Heimamenn héldu muninum fram að hálfleik og þegar liðin gengu til búningsklefa var staðan 42-33 heimamönnum í vil. Kristinn Jónasson hafði komið inn með gríðarlega baráttu fyrir Haukana og þeir voru svo sannarlega ekki á því að gefa neitt eftir.
 
 
Heimamenn byrjuðu seinni hálfleikinn betur og komust í 51-37 en Kári og Francis nöguðu þann mun niður í 3 stig 51-48 með frábærum kafla. Tindastóll náði þó áttum og fór að setja aðeins niður af skotum og héldu 3ja stiga mun 64-61 fyrir lokafjórðunginn. Í síðasta fjórðungnum voru heimamenn sterkari en voru í miklum villuvandræðum og misstu Dempsey, Flake og Helga Rafn alla útaf með 5 villur. Þegar 5 mínútur voru eftir kom Lewis heimamönnum í 7 stiga forystu með tveimur vítum en mínútu seinna var staðan orðin 77-76 eftir tvö risaþrista frá Kristni Marinós. Game on!
 
 
Heimamenn sýndu fáheyrt öryggi á vítalínunni þessar lokamínútur og 7 af 8 komu þeim í 86-84 forystu fyrir lokamínútuna. Emil Barja jafnaði með 2 vítum þegar 20 sekúndur voru eftir og spennan í Síkinu í algleymingi.
 
 
Heimamenn áttu svo frábærlega útfærða lokasókn sem endaði með því að Svavar Atli fékk frítt 3ja stiga skot þegar 4 sekúndur voru eftir og sá gamli klikkaði ekki! Haukar náðu ekki að koma skoti á körfuna á þeim tíma sem eftir var og heimasigur því staðreynd, 89-86.
 
 
Kári Jónsson átti frábæran leik fyrir gestina, skoraði 23 stig og gaf 5 stoðsendingar, ótrúlega skemmtilegur leikmaður sem á framtíðina fyrir sér. Francis var með 21 stig og 14 fráköst. Lewis leiddi vagninn fyrir heimamenn en Helgarnir átti líka góðan leik og Svavar Atli var drjúgur með 12 stig og þar af vinningsþristinn. Frábær leikur.
 
 
Mynd: Svavar Atli klárar leikinn fyrir Tindastól.
 
 
Myndir/ umfjöllun/ viðtal – Hjalti Árnason
 
 
Fréttir
- Auglýsing -