Byssukúlan eða Marcus „The Bullet“ Walker er væntanlegur aftur til Íslands í sumar en þá hyggur kappinn á að standa fyrir körfuboltabúðum. Eflaust muna margir eftir Walker sem varð Íslandsmeistari með KR 2011. Hann fékk ekki þetta viðurnefni að ósekju enda margur varnamaður í deildinni sem hefur ekki hugmynd um hvernig maðurinn lítur út í framan en þekkja baksvipinn á honum betur séð úr reykjarmekki. Samkvæmt okkar heimildum hljóp Byssukúlan 100 metrana upp á sitt besta á um það bil 10,6 sekúndum.
Nákvæm dagsetning er ekki enn komin á fast hvað varðar körfuboltabúðirnar en við munum koma því á framfæri eins fljótt og auðið er.
Hér er á ferðinni skemmtilegur kappi og dvöl hans á Íslandi var honum það eftirminnileg að hann lét flúra á sig KR-merkið, það er alvöru!

.jpg)



