Njarðvíkingar fóru illa með gesti sína úr Garðabæ í kvöld þegar Stjörnumenn heimsóttu Ljónagryfjuna. 101:88 varð lokastaða leiksins eftir að Njarðvíkinar höfðu leitt í hálfleik, 51:38. Njarðvíkingar tylla sér þar með í þriðja sæti deildarinnar og staða þeirra þar lítur óneitanlega vel út fyrir lokaumferðina en hinsvegar erfiður leikur eftir hjá þeim í Þorlákshöfn í síðustu umferðinni. Stjörnumenn detta niður í 6 sæti deildarinnar og koma því til með að mæta Njarðvíkingum ef deildin endar líkt og hún er núna.
Það var rétt í fyrsta fjórðung að liðin voru að spila jafnan leik. Stjörnumenn hófu leikinn betur og komust í 0:8 eftir rúmlega tveggja mínútna leik. Allt stefndi í enn eitt skiptið þar sem Njarðvíkingar voru hálf hauslausir á sínum eigin heimavelli. Friðrik Ingi var hinsvegar snöggur að taka leikhlé og hræra strax upp í sínum mannskap. Þetta dugði til og Njarðvíkingar komu sér fljótt aftur inn í leikinn. Bæði lið höfðu skorað 22 stig eftir fyrsta fjórðung og allt stefndi í hörku rimmu.
Í öðrum fjórðung fóru hinsvegar Njarðvíkingar að slíta sig örlítið frá, þó aldrei þannig að þeir væru komnir með eitthvað óyfirstíganlegt forskot. Jeremy Atkinson var ekki að spila sinn besta leik framan af og það munaði um minna hjá þeim Stjörnumönnum. Njarðvíkingar með Elvar Már Friðriksson um borð þetta kvöldið hófu að keyra fast að körfu Stjörnumanna og vörn þeirra hertist til muna. Stefan Bonneau kláraði svo fyrri hálfleik með buzzer þrist og Njarðvíkingar leiddu sem fyrr segir 51:38 eftir 20 mínútur.
Strax í upphafi þriðja leikhluta hélt Bonneau áfram að hamra heitt stálið og nældi sér í huggulegt “And 1”. Þetta leið einhvernvegin þannig að það var smá slen í gestunum þetta kvöldið og þannig séð virtust þeir bara einfaldlega ekki tilbúnir í verkefnið. Það kom jú ágætis áhlaup hjá þeim í byrjun fjórða leikhluta en aldrei þannig að það ógnaði sigri heimamanna. Því í hvert skipti sem smá neisti kviknaði hjá þeim þá var hann jafn harðan slökktur með körfu Njarðvíkinga. Vissulega verðskuldaður sigur hjá heimamönnum og loksins náðu þeir að sýna sínum stuðningsmönnum að þeir geti enn spilað vel á heimavelli, en þeir hafa átt erfitt uppdráttar á heimavelli nú eftir áramót og tapað tveimur stórum leikjum þar.



